145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2014.

417. mál
[12:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn á frumkvæðismálin vegna þess að ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni og við höfum átt umræðu um það fyrr. Ég er hjartanlega sammála honum og nefndinni um að frumkvæðismál sem umboðsmaður hefur ráðist í skipta gífurlegu máli. Þetta embætti fór einna best eftir þeim fyrirmælum sem sett voru hér á þrengingarárunum um að draga virkilega saman. Það var gert hjá þessu embætti, farið var að því sem Alþingi lagði fram þar, alveg skýrt og skorinort.

Þá urðu frumkvæðismálin út undan, þá þótti brýnna að sinna öðrum málum sem komu beint frá borgurunum. Á hinn bóginn skulum við ekki gleyma því að umboðsmaður hefur líka ráðist í frumkvæðismál sem skipt hafa mjög miklu máli.

Það er svolítið eitur í mínum beinum að þegar þingið veitir fjármagn segi það stofnunum hvernig þær eigi að nota það. Ég á svolítið erfitt með það, en ég féllst á það í þessum efnum. En höfum við einhverja aðra leið? Á að gera erindið betra og þá líka skikka okkur sjálf til að þegar fjárveitingin er veitt að við förum virkilega í gegnum það hvort hægt sé að sinna lögbundnum verkefnum? Þegar við útdeilum fjármagni til hinna opinberu stofnana megum við ekki gera það með þeim hætti að þær geti ekki sinnt lögbundnum (Forseti hringir.) verkefnum sínum. En við eigum ekki að pota í einstök verkefni.