145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2013.

305. mál
[12:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hefur mikil vinna farið í álit fjárlaganefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings vegna ársins 2013. Það er komið árið 2016 og aldrei gott að ræða mál svona löngu síðar. Eins og hv. formaður nefndarinnar fór yfir koma sömu ábendingar Ríkisendurskoðunar fram árum saman. Það hefur gengið mjög hægt í gegnum tíðina að ná utan um ákveðna þætti í ríkisrekstrinum langt aftur í tímann og er í rauninni enn þá þannig, eins og kom fram funduðum við með Ríkisendurskoðun í gær þar sem farið var yfir árið 2014 og þar eru athugasemdir sem er að finna í þessu hér. Það er rétt að sumt af því sem hefur verið tekist á við og hefur borið ávöxt, ef maður getur sagt sem svo, hefur skilað sér.

Þetta er mikilvægt þótt ég sé ekki endilega talskona þess eða haldi að lögin um opinber fjármál leysi alla skapaða hluti. Mér finnst svolítið látið að því liggja í umræðunni um þau að þá breytist allt, þá verði til eitthvert nýtt fjármálakerfi. En það er með það eins og fjárlögin sem við eigum að fara eftir að einhvern veginn tekst fólki að fara á svig við þau. Ég sé ekki að það geti ekki gerst með nýju lögunum líka. Vissulega á að leggja upp með að aginn verði meiri og betri. Ég vona svo sannarlega að það verði svo.

Svo við höfum við líka fjallað um hvernig ríkisreikningurinn er færður og hver niðurstaðan væri ef það væri fært með eðlilegum hætti. Það má alveg velta því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum ríkissjóður hefur leyft sér að færa reikninginn sinn á þann hátt að fegra hann árið 2013 um tæpa 30 milljarða og 2014 um tæpa 40, minnir mig. Fjárlaganefnd vill breyta þessu og ég hefði viljað sjá það gerast þegar við gerum upp 2014, þótt lögin um opinber fjármál taki beinlínis á þessu þá taka þau ekki gildi fyrr en 2017. Mér finnst óþarfi að við sitjum föst í sömu sporunum og hunsum þessar ábendingar alveg þangað til lögin neyða okkur til að taka á því, af því að Ríkisendurskoðun bendir á að það eigi að færa þetta svona. Ég ákveð að fylgja því og treysta því að það sé þannig. Mér finnst að við eigum að beita okkur fyrir því í fjárlaganefnd að árin fram að gildistöku opinberra fjármála verði þetta fært eins og Ríkisendurskoðun leggur til.

Ríkisendurskoðun bendir á nauðsyn þess að færa áhvílandi skuldbindingar í efnahag ríkissjóðs. Ég tel afar mikilvægt að lífeyrisskuldbindingarnar og annað komi fram þannig að við sjáum raunverulega stöðu ríkissjóðs.

Ég get ekki skautað fram hjá neikvætt bundnu eigin fé sem við höfum talað mjög mikið um í þingsal og ég hef talað mikið um, því að það snýr að mestu leyti að Vegagerðinni. Ég er nokkuð viss um að þegar þingmenn í salnum greiða atkvæði um tilteknar framkvæmdir sem eru utan markaðra tekna Vegagerðarinnar, þegar verið er að veita slíkt fé, eins og ríkisstjórnin gerði í fyrrasumar þar sem hún veitti stórar fjárhæðir án þess að fara í gegnum hið hefðbundna ferli, þá held ég að þingmenn hafi ekki greitt atkvæði með því að þá myndist skuld við ríkissjóð heldur hafi það verið viðbótarframlag til Vegagerðarinnar. En það er fært eins og það sé skuld við ríkissjóð, sem sagt neikvætt eigið fé byggist upp sem er auðvitað ekki til því þú getur ekki verið með svona mikinn mínus í eigin fé.

Aðrir þingmenn en fjárlaganefndarþingmenn þyrftu að hlusta á þessa umræðu til þess að átta sig á því. Ég vona að fólk ræði þetta í sínum ranni því að það er mikilvægt. Ég er alveg sannfærð um að slíkar færslur eru ekki eins og margur þingmaðurinn heldur.

Mér finnst líka mikilvægt, við ræddum það aðeins í gær, að áhættan komi fram sem ríkissjóður stendur frammi fyrir og það sé fært inn í ríkisreikninginn þannig að það sjáist, eins kom fram í gær á fundinum vegna 2014, að ef ríkissjóður er í málaferlum, þótt það sé ekki stórkostlegar fjárhæðir, sé fært eitthvað inn um það svo að við getum áttað okkur á því hvort við gætum átt von á stórfelldum skuldbindingum vegna þess. Ég held að það sé ágætt og vona að það verði gert og við beitum okkur fyrir því í fjárlaganefnd að það verði gert núna í reikningnum 2014.

Þetta er afar stuttur tími. Varðandi daggjöldin kemur fram að fjárlaganefnd ítreki skoðun sína, að gert hafi verið ráð fyrir fjármögnun lífeyrisskuldbindinga í daggjöldunum. Ég er ekki alveg sannfærð í hjarta mínu eftir að hafa heyrt í öllum þessum hjúkrunarheimilum að það sé raunin þegar upp er staðið, því að það er ástæða fyrir því að þau eru öll í miklum kröggum. Ég held að við þurfum þá að láta reikna þessi daggjöld fyrir okkur og það er eflaust til, við þyrftum kannski bara að kalla eftir því í nefndinni og taka sérstaklega fyrir daggjöld hjúkrunarheimila og þeirra stofnana sem ríkið er að borga fyrir, að þau standi klárlega undir öllum eðlilegum rekstrarkostnaði og þar með þessum lífeyrisréttindum. Á einhverjum forsendum ákvað hæstv. heilbrigðisráðherra að gera upp við séreignarstofnanirnar sem ekki eru á vegum sveitarfélaganna um lífeyrisgreiðslurnar, en ekki sveitarfélögin, sem mér finnst vera ákveðin viðurkenning á því að daggjöldin duga ekki fyrir þessum rekstri. Ég held að þetta sé eitthvað sem við eigum að taka fyrir.

Liður 31 á bls. 18 er um eignasafn Seðlabankans og hlutverk hans. Þetta er ágætt. Hér er fjárlaganefndin sammála Ríkisendurskoðun varðandi þá athugasemd að ríkisendurskoðandi hefur lýst þeirri skoðun sinni að það sé ekki hlutverk Seðlabankans að stunda svona umfangsmikil viðskipti á almennum markaði.

Við erum með ófrágengið frumvarp hæstv. fjármálaráðherra varðandi það að fela Seðlabankanum umfangsmikil viðskipti, eignaumsýslu og sölu. Ég held að miðað við undirtektir fjárlaganefndar hljótum við að vera sammála um að það er eitthvað sem getur ekki gengið eins og það hefur verið lagt fram.

Í lokin ætla ég aðeins að tala um neikvæðu stöðuna sem flyst á milli ára og þá ábendingu Ríkisendurskoðunar að það verði útbúnar einhverjar reglur eða formlegt verklag þannig að ráðherra þurfi beinlínis að skýra öll frávik, til hvaða ráðstafana ráðuneytin hafa gripið, og Alþingi mundi svo fjalla um málið, álykta um það og taka ákvörðun. Ríkisendurskoðun leggur til ákveðið ferli sem ég held að við þurfum að taka alvarlega. Það kemur fram í athugasemdunum um endurskoðun ríkisreiknings vegna 2014. Það er eitthvað sem við sáum þegar lækkað var framlag til sýslumannsins á Suðurnesjum, minnir mig, og Landspítalans og einhvers eins aðila, þá var sá óformlegi háttur hafður á að ef aðilar héldu sig innan ramma til þriggja ára fengju þeir niðurfellda 2/3 af skuldum sínum við ríkissjóð. Ef það er vilji til að gera það verklag formlegt þá á að gera það. Svo eru aðrar ábendingar sem ég held að við ættum að taka til ítarlegrar skoðunar. Eins og ég sagði áðan finnst mér ekki að við eigum að bíða til ársins 2017 með að laga þetta heldur gera það strax.