145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2013.

305. mál
[12:42]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Það hljómar kannski ekki sem mest spennandi umræðuefni í heimi, álit fjárlaganefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2013. En ótrúlegt en satt var sú vinna sem vinnuhópur fjárlaganefndar vann í tengslum við hana mjög áhugaverð og ég mundi segja mikilvæg, vegna þess að endurskoðun ríkisreiknings af hálfu Ríkisendurskoðunar er ekki eitthvað sem á bara að setja ofan í skúffu og gleymast þar. Nú höfum við fengið ríkisreikning 2014 og munum í raun hefja sömu vinnu við hann. Þá verður spennandi að sjá hvort við getum krossað einhver atriði út af listanum sem sjá má í áliti fjárlaganefndar.

Vissulega breytist eitthvað núna sem komið hefur fram með tilkomu nýju laganna um opinber fjármál. Svo eru atriðin mismikilvæg, en allt sem hefur ratað í álitið er þó eitthvað sem við teljum rétt að skoða betur. Hvet ég þingheim til að renna yfir álitið vegna þess að það er sett þannig upp að auðvelt er að sjá um hvað málið snýst, og síðan er afstaða fjárlaganefndar útlistuð sérstaklega.

Ég ætla ekki að fara að renna í gegnum þetta skjal. Fólk les það bara. Hér eru aðrir nefndarmenn sem gera það. Ég hlakka til að takast á við ríkisreikning 2014 og athugasemdir Ríkisendurskoðunar hvað hann varðar. Ég er ánægð með að við fjórar konur í nefndinni skulum hafa sinnt þessu starfi vel og ætlum að gera það áfram.