145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[14:36]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Aðstoð við haltan mann getur verið fólgin í því að færa honum staf, en þegar aðstoðin snýr að því að fá einokun á því að smíða stafinn fyrir hann þá fer maður að velta því fyrir sér hvaða forsendur búi að baki.

Menntakerfið, heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið — hornsteinar og undirstöður framfara 20. aldarinnar urðu til í forsjá ríkis eða sveitarfélaga, í krafti almennings sem tók höndum saman. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því að nákvæmlega þannig var það. Síðan er enginn að mæla gegn því að við nýtum okkur markaðinn þar sem hann gagnast, það gerum við að sjálfsögðu.

Hvað varðar Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þá hygg ég að oftar en ekki hafi hann annaðhvort reynst vera varðstöðumaður fyrir heimsfjármagnið eða að þessar stofnanir hafi verið nýttar af alþjóðafjármagninu. Ég var að rekja á hvern hátt það hefði verið gerst (Gripið fram í.) — og að við hefðum tekið þátt í þessu. (Gripið fram í.) Ég get fundið þær ræður allar sem voru fluttar fyrir okkar hönd í stjórnum þessara stofnana þar sem skilyrðin voru tilgreind, að því aðeins fengju þessar snauðu þjóðir lán að áður markaðsvæddu þær sín kerfi. Þetta er bara staðreynd.

Nú er ég einvörðungu að spyrja um þetta. (Gripið fram í: Annars ná þær sér ekki á strik.) Annars ná þær sér ekki á strik — hér er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins að segja að nákvæmlega þetta sé eðlilegt að gera. Þar sem grunur minn hneigist í þessa sömu átt þá geld ég varhuga við þessu. Ég hef ekki fengið svar við því á hvaða forsendum þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru tilbúnir að pína íslenska skattgreiðendur til að leggja 2,3 milljarða inn í ævintýri sem þeir vita ekki hvert leiðir.