145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

nýr búvörusamningur.

[13:40]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er samið við flestar stéttir landsins um kaup, kjör og starfsaðstöðu án þess að menn geri það úr ræðustól Alþingis. Hins vegar mun þingið hafa tækifæri til að ræða þessi mál og þar tek ég undir með hv. þingmanni, vonandi mun sú umræða litast af samstöðu um mikilvægi landbúnaðar eins og hv. þingmaður ýjaði að hér áðan.

Við hljótum að vilja, öll eða flest hér á þingi, að við stöndum vörð um íslenska matvælaframleiðslu og búum íslenskum bændum þau starfsskilyrði að þeir geti framfleytt sér og að við getum viðhaldið þessu fjölskyldubúafyrirkomulagi sem hefur verið undirstaða matvælaframleiðslu í landinu í meira en 1100 ár.

Það væri mjög óeðlilegt ef við ætluðum að fara að taka eina stétt sérstaklega út úr og deila um kaup hennar og kjör og starfsaðstöðu í þessum ræðustól en semja við alla aðra einhvers staðar annars staðar.