145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

nýr búvörusamningur.

[13:42]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Hér held ég að hefði einmitt verið svo gott tækifæri til að stuðla að meiri umbótum í landbúnaðarmálum, það hefði verið hægt að mynda stefnu um að auka fjölbreytni í matvælaiðnaðinum, að koma til dæmis í veg fyrir að mjólkurframleiðslan væri undanþegin samkeppnislögum, að horfa til nýliðunar í stéttinni, horfa til þess hvernig þetta virkar fyrir ungt fólk, taka upp kynjagleraugun o.s.frv. Ég sakna þess, það eru ákveðnar breytingar í búvörusamningnum sem hefðu mátt vera svo miklu sterkari og koma hraðar til framkvæmda.

Almennt held ég að það sé tími fyrir okkur til að losna undan þeim bévítans og hábölvaða ósið að taka alltaf mikilvægar og stefnumarkandi ákvarðanir án gegnsæis og án lýðræðislegrar umræðu, án þess að við myndum okkur stefnu fyrir fram. Það er kannski ekkert skrýtið að það ríki ákveðið vantraust þegar fólk upplifir það aftur og aftur og trekk í trekk (Forseti hringir.) að verið sé að taka ákvarðanir í eins konar bakherbergjum þar sem sumum hagsmunaaðilum er hleypt að en ekki öðrum sem málið varðar.