145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

nýr búvörusamningur.

[13:43]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér finnst nú óþarfi að setja samninga við bændur sérstaklega í þetta samhengi, tala um bakherbergi og slíkt. Það er ekki gert þegar verið er að semja við aðrar stéttir, þannig að mér finnst óviðeigandi að menn skuli fara sérstaklega í bændur á þennan hátt og telja að þeir eigi að vera tilefni til átaka eða að menn eigi að semja hér úr þessum ræðustól þegar kemur að bændum, en annað eigi að gilda um alla hina.

Hvað varðar þessi markmið sem hv. þingmaður rakti hér og taldi mikilvæg þá held ég að ég hafi heyrt rétt að þetta séu allt markmið sem litið var til við gerð þessara búvörusamninga, sem fela í sér óvenjumiklar breytingar; það eru allt saman breytingar sem miða að því að ná fram þeim umbótum sem hv. þingmaður taldi svo mikilvægt að ráðist yrði í.

Vonandi mun hv. þingmaður fagna þeim breytingum, þegar þetta kemur til umræðu hér í þinginu.