145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

starfsreglur verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

[13:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það kemur sem sagt fram hjá ráðherranum að haldinn hafi verið fundur með forstjóra Landsvirkjunar þar sem hæstv. ráðherra hlýddi á athugasemdir Landsvirkjunar við verkefnisstjórn rammaáætlunar þannig að það sem fram kemur í fréttatíma Ríkisútvarpsins 14. febrúar er sem sagt ekki rétt þar sem ráðherra kveðst ekki hafa haft sérstakt samband við Landsvirkjun. Gott og vel.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort þær athugasemdir og þær tillögur sem Landsvirkjun lagði fram, sem einkum lutu að því að fá að endurmeta Norðlingaölduveitu undir nafninu Kjalölduveita, liggi fyrst og fremst til grundvallar þeirri breytingu sem hæstv. ráðherra leggur til á heimasíðu ráðuneytisins.

Í öðru lagi vil ég spyrja ráðherrann hvort fram hafi farið lögfræðileg úttekt á því að þessi breyting (Forseti hringir.) standist lög um rammaáætlun eða gangi í berhögg við þau eins og ég tel sjálf að þau geri.(Forseti hringir.) Ég spyr ráðherrann hvort hún telji þetta sæma því markmiði að standa vörð um lög og verkefnisstjórn rammaáætlunar.