145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

starfsreglur verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

[13:50]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er mjög auðvelt og er mjög stundað úr þessum ræðustól að vera með hártoganir og gera orð fólks tortryggileg.

Ég stend við það að ég hef ekkert sérstaklega hlaupið eftir orðum Landsvirkjunar. Ég hélt líka fundi með Landvernd, bara svo ég nefni það í „forbífarten“. Það eru margir fundir haldnir í umhverfisráðuneytinu og ég sé ekkert athugavert við það þó að ég hlusti á forustumenn Landsvirkjunar vegna þess að verkefnisstjórn um rammaáætlun er bæði um vernd og nýtingu. Það eru þessir tveir ásar, hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá eru ásarnir tveir og ég er að reyna að halda jafnvægi þar á milli.

Í upphafi haustmánaða voru haldnir margir og langir fundir í atvinnuveganefnd. Ég veit ekki betur en að ýmsir hér sitji í atvinnuveganefnd. Þar komu fram talsverðar — margar ábendingar … (Gripið fram í.) Á fundum sem ég fékk að heyra frá (Forseti hringir.) atvinnuveganefnd — ég sat ekki þá fundi — (Forseti hringir.) að þar hefðu komið fram hugmyndir um hvað þyrfti að skoða betur. Í kjölfarið á þeim nefndarfundum hjá Alþingi var talið eðlilegt í umhverfisráðuneytinu að taka starfsreglurnar (Forseti hringir.) til endurskoðunar (Gripið fram í.) og það er núna — var í ferli þar sem allir gátu sent inn sínar athugasemdir.