145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

búvörusamningur og mjólkurkvótakerfi.

[13:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hvers vegna segir forsætisráðherra að búvörusamningarnir séu búið mál og afgreitt? Hvers vegna vill forsætisráðherra ekki ræða búvörusamningana?

Bíddu. Á ekki að ræða 140 milljarða ríkisútgjöld? Yfir 1 millj. kr. á hvert heimili? Eða vill forsætisráðherra kannski ekki ræða búvörusamninginn af því að hann veit að þetta er vondur samningur? Af því að þetta er glatað tækifæri bæði til þess að bæta kjör bænda og neytenda? Vegna þess að hér er verið að gera dýrari samning til lengri tíma án þess að ná fram neinum kerfisbreytingum fyrr en í fyrsta lagi á næsta áratug.

Forsætisráðherra skákar í því skjólinu að þetta séu laun bænda. En, virðulegur forseti, mest af þessu fé fer í vaxtaokur á bændur og kvótakaup en ekki í laun þeirra.

Það er einfaldlega kolrangt hjá hæstv. forsætisráðherra að við ræðum ekki launamál annarra stétta hér í þinginu, að það sé eitthvað óeðlilegt að ræða kjaramál einnar stéttar hér í þinginu. Ég veit nú ekki betur en að við höfum staðið hér allan desembermánuð og rætt um kjör aldraðra og öryrkja. Ég veit ekki betur en að forsætisráðherra hafi sjálfur sett á dagskrá hér í þinginu meira að segja kjaramál hásetanna á Herjólfi. Svo hér eru kjaramál jafnvel smæstu hópa rædd; háskólamanna þegar þeir eiga í kjaradeilum, almenna vinnumarkaðarins þegar það er.

Virðulegur forseti. Ég finn þessum ummælum hæstv. forsætisráðherra engan stað. Þessi röksemd heldur engan veginn. Forsætisráðherra verður líka að segja okkur hvort þetta eigi ekki að koma hér til lýðræðislegrar umfjöllunar, hvort þetta kalli ekki á aðgerðir í fjárlögum sem þurfi samþykki meiri hluta þingmanna, hvort hér þurfi ekki að gera breytingar á búvörulögum sem þurfi samþykki meiri hluta þingsins.

Forsætisráðherra verður að segja okkur hvort í þessum dýra og langa samningi felist sú kerfisbreyting sem menn voru að gefa fyrirheit um.(Forseti hringir.)

Er hér verið að afnema kvótakerfið í mjólkinni eða ekki? Var hætt við það á síðustu stundu eða ekki? Er forsætisráðherra að verja öllum þessum peningum til þess að brjótast út úr kvótakerfinu eða ekki?