145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

búvörusamningur og mjólkurkvótakerfi.

[14:01]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tók ekki eftir því hvort hv. þingmaður var ekki í salnum hér áðan þegar við vorum að ræða þessi mál. Hann virtist að minnsta kosti ekki hafa verið að hlusta á það sem þar kom fram. Auk þess hélt ég því ekki fram, eins og hv. þingmaður vildi meina, að við ræddum ekki kjaramál á Alþingi. Ég sagði einfaldlega að menn væru ekki að semja við stéttir hér úr ræðustól Alþingis. Það var reyndar reynt að benda á það, meðal annars virðulegum þingmanni, þegar hann og fleiri félagar hans vildu fara að gera einmitt það og fara í samningaviðræður hér úr þessum ræðustól en þá reyndar á allt öðrum forsendum en núna.

Það er mjög sérkennilegt að heyra að hv. þingmaður skuli tala svona til einnar stéttar, bænda sérstaklega, að ekki megi vera í viðræðum um kaup þeirra og kjör og starfsaðstöðu á sömu forsendum og gagnvart öðrum stéttum. Hann kastar fram einhverjum vitleysisfullyrðingum. Nú þegar hv. þingmaður er orðinn formannsframbjóðandi hvet ég hann til þess að gæta hófs í málflutningi, tala af skynsemi og tala vel til bænda [Kliður í þingsal.] vegna þess að bændur (Gripið fram í.) eru …

Virðulegur forseti. Hvað get ég gert til að — ja, ég vil ekki gleðja hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur meira, ekki megum við við því, en hvað get ég gert til þess að róa hana? Getum við haldið áfram? Jú. Ég gleðst alltaf þegar ég næ að gleðja hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. Það tekst stöku sinnum, en hvar vorum við? [Háreysti í þingsal.] (Gripið fram í: Formannaskólanum.) Já, formannaskólanum. [Hlátur í þingsal.] Megininntakið er það, við getum rætt þetta hér frammi í mötuneyti síðar, að sem formannsframbjóðandi ætti hv. þm. Helgi Hjörvar að temja sér að tala betur um allar stéttir, þar með talið og ekki hvað síst bændur.