145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[14:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þeim spurningum sem varpað var fram af ýmsum þeim sem gagnrýndu þessa tillögu á sínum tíma bæði hér í þingsölum og líka í utanríkismálanefnd hefur að mínu viti verið svarað.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að það er ákveðin togstreita sem hefur ríkt um hverjir ættu að vera í forustu og hafa mest ítök í hinum alþjóðlega stofnanaheimi sem mótaðist af því hvernig heimurinn leit út eftir seinni heimsstyrjöldina. Það liggur fyrir að ýmis ríki sem hafa verið að vaxa hratt og sækja fram til áhrifa eins og Kína og ýmsar Asíuþjóðir telja að sinn hlutur sé fyrir borð borinn, svo sem varðandi stjórnun á fjármagni sem kemur frá Alþjóðabankanum. Það er ekkert leyndarmál að innviðafjárfestingabankinn er settur fram sem mótvægi við þeirri skipan.

Ég tel að þetta sé jákvætt mál. Ég tel að þetta leiði til uppbyggingar í þeim löndum sem bankinn á að veita fjármagn til. Það sem ég geri athugasemdir við er ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að taka þær 500 milljónir sem okkur er sagt að verði greiddar inn í bankann frá þróunarfé. Ég er algjörlega á móti því (Forseti hringir.) og áskil mér allan rétt til þess að berjast gegn því ef það kemur fram.

(Forseti hringir.) Hins vegar vil ég lýsa því alveg skýrt yfir að ég greiði atkvæði með þessari tillögu.