145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[14:17]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með öðrum hér og fagna sérstaklega orðum hæstv. utanríkisráðherra áðan um að þetta framlag verði ekki talið til þróunaraðstoðar og skerði ekki það fé sem fer til þróunaraðstoðar af Íslands hálfu. Ég mun styðja þetta frumvarp. Ég styð það að Ísland taki þátt í alþjóðlegu samstarfi. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir lítið land. Í utanríkisstefnu okkar höfum við lagt áherslu á að taka þátt í alþjóðlegum stofnunum og sérstaklega þegar okkar nánustu samstarfsaðilar og vinaríki eins og Norðurlöndin og Evrópuríkin taka þátt þá finnst mér full ástæða til að við gerum það líka. Það getur ekki verið annað en gott fyrir Ísland að vera þátttakandi og þess utan er það líka hagur Íslands að hagur umheimsins sé sem bestur. Þó að verkefnin séu annars staðar á hnettinum munu (Forseti hringir.) þau á endanum líka vera jákvæð fyrir okkur Íslendinga.