145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir sérstakri umræðu við hæstv. utanríkisráðherra um aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli því að okkur í Vinstri grænum finnst mikilvægt að á Alþingi fari fram opin umræða um öryggis- og varnarmál, stefnu stjórnvalda þegar kemur að varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Síðast en ekki síst er mikilvægt að ræða þessi mál í samhengi við aukna spennu í alþjóðamálum.

Fyrr í þessum mánuði voru fluttar fréttir í Stars and Stripes, sem er dagblað og vefrit Bandaríkjahers og gefið út af varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, um að fyrirhuguð væru aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli. Sótt hefur verið um fjárveitingu til að ráðast í breytingar á flugskýli fyrir um 2.700 millj. kr. Jafnframt kom fram í umræddri frétt að mögulega kynni þetta að verða fyrsta skrefið í átt að varanlegri viðveru Bandaríkjahers í Keflavík.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur reynt að gera lítið úr þessum fréttum og m.a. svarað fyrir málið í fjölmiðlum á þann hátt að ekki standi til að hér verði umsvif eins og áður en herinn fór. En það er þó ljóst að það er ansi breitt bil á milli herstöðvar með þúsundir hermanna og núverandi umsvifa. Við brottför hersins árið 2006 var gert samkomulag um framkvæmd núverandi varnarsamnings. Telur hæstv. utanríkisráðherra ef til vill ástæðu til að gera breytingar á því?

Það er ekkert leyndarmál að margir innan Bandaríkjahers eru þeirrar skoðunar að æskilegt væri að hafa meiri umsvif á Íslandi en nú eru. Bob Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, staðfesti það til að mynda í heimsókn hingað til lands í september á síðasta ári. Í því ljósi eru það að sjálfsögðu talsverð tíðindi að opinbert vefrit hersins skuli sérstaklega vekja athygli á þessum fregnum og tengja það hugleiðingum um aukna viðveru. Þótt íslenskir ráðamenn segi málið ekki fréttnæmt er greinilegt að einhverjum í Pentagon þykir svo vera. 2.700 millj. kr. eru mikið fé og er engin ástæða til að gera lítið úr þeirri upphæð.

Það er líka eðlilegt að skoða þessar áætlanir í samhengi við þann stóraukna viðbúnað sem Bandaríkjaher fyrirhugar í Evrópu. Bandaríkin, Rússland og Bretland eru öll að endurnýja kjarnorkuvopn sín. NATO-ríki vinna að uppsetningu eldflaugavarnarkerfa í Austur-Evrópu, sem augljóslega beinast gegn Rússum. Rússneski herinn hefur eflt viðbúnað í mörgum flotastöðva sinna og í nokkrum grannríkjum Rússlands hafa verið settar á legg hraðsveitir sem kalla má til með skömmum fyrirvara ef til átaka kemur.

Allt hnígur þetta því í sömu átt. Það er ákveðin spenna og vopnakapphlaup er hafið í Evrópu. Það eru alvarleg tíðindi. Markmiðið með hinum fyrirhuguðu breytingum á flugskýlunum á Miðnesheiði er að þau geti þjónustað enn stærri og öflugri kafbátaleitarflugvélar. Öflugri flugvélar leiða til þess að rússneskir kafbátar þurfa að vera enn hreyfanlegri á siglingum sínum. Hættan á stigmögnun vex með tilheyrandi hættu á slysum sem gætu haft hörmulegar afleiðingar í för með sér.

Hæstv. forseti. Við eigum að nálgast þetta mál af fullri alvöru en ekki yppa öxlum og láta eins og það snúist bara um tímabært viðhald á gamalli flugskemmu. Stjórnvöld og raunar allir stjórnmálaflokkar eiga að svara því hver vilji þeirra sé varðandi umsvif erlendra herja á Íslandi. Er það vilji hæstv. ráðherra að Bandaríkjaher byggi upp enn meiri aðstöðu en fyrir er, auki hér umsvif sín og viðveru?

Frá því að herstöðinni á Miðnesheiði var lokað árið 2006 höfum við horft upp á gríðarlega aukningu í almennu millilandaflugi um Keflavíkurflugvöll. Fer sú starfsemi saman við aukin hernaðarumsvif? Á sama hátt má spyrja sig varðandi orrustuflugsæfingar NATO-ríkja hér á landi sem kallaðar hafa verið loftrýmisgæsla: Hvernig samræmast lágflugsæfingar hagsmunum ferðaiðnaðarins, dýralífi og náttúruvernd?

Fyrir okkar leyti í Vinstri grænum svörum við því til að aukin hernaðarleg umsvif hér á landi þjóni ekki jákvæðum tilgangi og vinni raunar gegn öryggi þjóðarinnar. Að okkar mati eru framkvæmdir við hernaðarmannvirki á Miðnesheiði hrein tímaskekkja og að réttara væri að huga að uppsögn varnarsamningsins en að auka umsvif eða (Forseti hringir.) viðveru hersins í Keflavík.