145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu því að mikilvægt er að ræða öryggis- og varnarmál reglulega og út frá aðstæðum hverju sinni. Nú er það svo að margt hefur breyst í umhverfis- og öryggismálum í Evrópu frá því að varnarliðið hvarf héðan af landi brott haustið 2006. Hryðjuverkaógn hefur aukist, netárásir verða sífellt algengari og innlimun Rússlands á Krímskaga árið 2014 markaði í raun tímamót í sögu Evrópu, þegar landamærum var breytt með vopnavaldi í fyrsta skipti frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Þessi breytta mynd hefur haft sín áhrif hér á Íslandi og á norðanverðu Atlantshafi þar sem vart verður aukinna hernaðarumsvifa, hvort heldur er í lofti eða á legi.

Hér er sérstaklega spurt um aukna viðveru herliðs á Keflavíkurflugvelli. Hún hefur aukist nokkuð á undanförnum árum í takt við versnandi horfur í öryggismálum í okkar heimshluta. Frá árinu 2008 hefur farið fram á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli reglubundin loftrýmisgæsla af hálfu Atlantshafsbandalagsins. Hún fer fram þrisvar á ári og frá árinu 2017 stefnir í að hún verði fjórum sinnum á ári, sem var upphafleg ákvörðun NATO þegar herinn fór héðan 2006.

Þá hafa farið fram reglubundnar æfingar og viðkoma ýmiss konar flugvéla vegna rannsókna, eldsneytistöku eða viðhalds og viðgerða. Þá hefur orðið aukning í flugi kafbátaleitarvéla, ekki síst frá Bandaríkjunum en einnig frá Kanada á undanförnum tveimur til þremur árum, sem á rætur að rekja til aukinna hernaðarlegra umsvifa rússneska norðurflotans sem staðsettur er á Kólaskaga.

Kafbátar norðurflotans sækja í auknum mæli út á Atlantshafið og þykir, í ljósi breyttra öryggisaðstæðna í Evrópu, fyllsta ástæða til að fylgjast með ferðum þessara kafbáta, meðal annars frá Íslandi. Nú gegnir landfræðileg staða okkar, varnarsamningurinn við Bandaríkin og aðild að NATO og sú aðstaða sem er til staðar á öryggissvæðinu mikilvægu hlutverki í þessu samhengi.

Kafbátaleitarvélarnar sem notaðar eru og hafa undanfarið verið í fréttum kallast P-8. Þær eru að taka við af eldri gerð kafbátaleitarvéla sem nefndar voru P-3 og eru að úreldast. Til að hægt sé að koma þessum P-8 vélum inn í flugskýli Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli þarf að breyta gafli skýlisins og stækka hurðir. Enn fremur þarf að styrkja gólf skýlisins og mála aksturslínur. Af þeim sökum hefur bandaríski sjóherinn farið fram á rúmlega 21 millj. dollara eða 2,7 milljarða kr. fjárveitingu í varnarmálahluta fjárlaga fyrir árið 2017 sem Bandaríkjaforseti sendi nýlega til þingsins. Þeirri fjárveitingu er ætlað að standa straum af þeim breytingum sem hér hafa verið nefndar og gera þarf á skýlinu, auk þess að koma á fót þvottaaðstöðu fyrir vélarnar.

Ég hef fagnað því að Bandaríkjamenn vilji leggja til fjármuni til endurbóta á þessu flugskýli og tel það styrkja varnir landsins og NATO. Í þessu felst engin eðlisbreyting á viðveru herliðs á Keflavíkurflugvelli. Árið 2014 voru fimm til átta kafbátaleitarflugvélar hér í samtals 24 daga með 165 þátttakendum. Árið 2015 voru ein til fjórar kafbátaleitarvélar hér samtals fjórum sinnum á mismunandi tímum með alls 216 þátttakendum. Þessi aukna viðvera er vel innan ramma varnarsamningsins. Engin beiðni hefur borist frá bandarískum stjórnvöldum um staðbundna viðveru herliðs á Keflavíkurflugvelli og engar viðræður hafa átt sér stað um neitt slíkt.

Það er líka ástæða til að halda því til haga að flug rússneskra herflugvéla við Ísland hefur verið verulegt frá árinu 2006. Þannig hafa rússneskar hervélar flogið upp að Íslandi 48 sinnum á tímabilinu 2006–2015 með samtals 107 hervélum. Þar sem þær fljúga án þess að auðkenna sig getur það skapað hættu fyrir almenna flugumferð, ekki síst vegna mikillar flugumferðar milli Norður-Ameríku og Evrópu í námunda við landið. Eftirlit með loftrými Íslands og loftrýmisgæsla er því nauðsynleg í þessu tilliti.

Herra forseti. Varnarsamstarf okkar við Bandaríkin og innan Atlantshafsbandalagsins er sífellt í mótun og þarf að endurspegla landslag í öryggismálum hverju sinni. Því miður hefur sigið á ógæfuhliðina á undanförnum árum í heimshluta okkar. Ísland er ekki eyland að því leytinu til og við höfum okkar skyldur og ábyrgð sem bandalagsríki. Ég vil hins vegar árétta enn á ný að engar viðræður eiga sér stað um viðvarandi veru erlends herliðs á Íslandi.