145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir á þakkir skildar fyrir að taka þetta mál hér upp. Viðhorf sem hún túlkar þurfa að heyrast hér í þessum sölum. Ég er líka þeirrar skoðunar að hún hafi rétt fyrir sér þegar hún segir að vestan hafs sé vilji fyrir því, innan bandarísku stjórnsýslunnar, að hafa meiri umsvif hér. Ég tel að Bandaríkjamenn sjái eftir því og telji það ranga ákvörðun, sem tekin var að frumkvæði Donalds Rumsfelds varnarmálaráðherra á sínum tíma, að fara héðan. Við skulum ekki gleyma því hvernig sá viðskilnaður var. Íslendingar töldu þá að þeir ættu í samningaviðræðum við Bandaríkjamenn um það með hvaða hætti herinn færi þegar þeim barst bréf þar sem þeim var tilkynnt undanbragðalaust að hann væri farinn.

Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að um þetta gilda alveg skýr ákvæði í þeim samkomulögum sem við höfum gert. Þær breytingar sem verið er að gera á Keflavíkurflugvelli rúmast algerlega innan þess viðauka sem gerður var við hinn tvíhliða varnarsamning millum Íslands og Bandaríkjanna árið 2006. Við búum við dálítið sérkennilega varnarstefnu sem helgast af því að við erum herlaus eyþjóð sem hvorki hefur vilja né burði til að halda úti eigin her. Það er þess vegna sem við höfum gengið frá varnar- og öryggismálum okkar með því að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og með alþjóðlegum samningum. Það sem er að gerast núna rúmast að mínu viti innan ramma þess.

Ég vil hins vegar segja það að ég tel að það pólitíska samkomulag sem líka var gert árið 2006 þurfi að skoða og uppfæra miðað við breyttar aðstæður vegna þess að að ýmsu leyti er það orðið úrelt í dag.