145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessar umræður. Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra nokkuð vísað í varnarsamninginn og mig langar því að spyrja: Hvaða samning? Var gerður nýr samningur og hvar er hann aðgengilegur og hvað má mikið stækka umsvif Bandaríkjahers hérlendis áður en það fer út fyrir þennan samning? Það þarf náttúrlega öllum að vera ljóst að þeim varnarsamningi sem við höfðum við Bandaríkin var einhliða sagt upp af Bandaríkjamönnum árið 2006.

Mér finnst mikilvægt að það komi afgerandi og skýr yfirlýsing frá hæstv. utanríkisráðherra um að hér sé ekki verið að opna herstöðina að nýju. Ef maður gúglar Iceland US Navy fer maður inn á vefi eins og Stars and Stripes, Defence News og Navy News og þar kemur alls staðar fram að við séum að opna herstöðina að nýju, að það sé í undirbúningi og það séu meira að segja einhvers konar viðræður þar að lútandi. Mér finnst því mikilvægt að það komi hreinlega yfirlýsing frá utanríkisráðuneytinu um að svo sé ekki, eingöngu sé verið að byggja þvottahús.

Það er alveg ljóst að haft hefur verið samband við mig frá fréttamiðlum sem ég hef hreinlega ekki treyst mér til að svara um þetta mál af því að mér finnst það ekki nægilega afgerandi. Mér finnst mikið slegið úr þessum miklu umsvifum og ég vil fá algjörlega skýr og afdráttarlaus svör um hve mikið má stækka innan þessa samnings. Og hvar er samningurinn aðgengilegur?