145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að taka þetta mál upp. Það er sannarlega þarft og við þyrftum að eiga hér miklu dýpri umræðu um stöðu alþjóðamála og hlutverk Íslands eða stöðu í þeim efnum.

Ég er þeirrar skoðunar að Ísland eigi að hafa kjark og sjálfstæði til þess að meta algerlega sjálfstætt og á sínum forsendum hvort við kærum okkur um að Ísland og íslenskt yfirráðasvæði verði eitthvert peð eða hrókur á því skákborði stórveldanna, aðallega Rússlands annars vegar og Bandaríkjanna og nánustu fylgismanna þeirra innan NATO hins vegar, sem eru að tala sig upp í nýtt kalt stríð. Það eru hin verstu ótíðindi og við hljótum að harma að menn á báða bóga gíri sig upp í það og séu að hnykla vöðvana.

Fyrir okkur sem vopnlausa smáþjóð á norðlægum slóðum, og vonandi áfram friðelskandi, er fátt dapurlegra en að sjá þá tilburði þar sem menn tala fyrir auknum vígbúnaði og auknum umsvifum af þessu tagi í heimshluta okkar. Við eigum að láta það skýrt í ljós bæði í orði og verki að við höfum ekki áhuga á að Ísland verði notað í slíku stigmögnunarvígbúnaðarstríðsæsingartali.

Það er mjög alvarlegt og ekki síst fyrir samstarf á norðurslóðum þar sem við þurfum á að halda friðsamlegri og góðri samvinnu þessara aðila sem eiga aðild að norðurskautinu. Við horfum á þetta versna núna mánuð frá mánuði, missiri fyrir missiri, þangað til nánast er að verða brostinn samstarfsgrundvöllur milli Rússlands og annarra aðila innan heimskautaráðsins, í Evrópuráðinu, að hluta til í norrænu samstarfi og svo framvegis. Við erum að fara áratugi aftur í tímann með þessu áframhaldi.

Mér fundust ræður hæstv. utanríkisráðherra og formanns hv. utanríkismálanefndar vera eins og gamalt bergmál úr neðanjarðarhelli sem minnti mig ónotalega á umræðuna hérna fyrir 25–30 árum. NATO-aðildin, vondu Rússarnir, mikilvægi þess að við stöndum saman og öll sú klisja. Hvað hefur Ísland með það að gera? (Forseti hringir.) Ekki nokkurn skapaðan hlut. Við eigum að halda áfram að gleðjast yfir því að herinn var svo vinsamlegur að yfirgefa okkur hérna 2006.