145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:49]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að sú hugsun sé orðuð upphátt í þessum sal að hæstv. utanríkisráðherra má ekki og á ekki í samskiptum við Bandaríkin fyrir hönd Ísland að haga sér eins og vængbrotinn vonbiðill sem er hvenær sem er tilbúinn að taka á móti dömunni sem hafnaði honum. Ég er heldur ekki að segja að hann sé að því, en það er mikilvægt að sú hugsun sé orðuð upphátt hér og það er gott að heyra að það er sameiginlegur skilningur á því að það eru aukin umsvif og að aukin vera herliðs á Keflavíkurflugvelli kalli á sérstaka umræðu hér í landinu, og kalli sérstaklega á sjálfstæða ákvörðun um það efni. Enn fremur er gríðarlega mikilvægt að við gerum Bandaríkjunum það ljóst að það er ekki þeirra að ákveða það. Það er ákvörðun sem er tekin hér á landinu. Ef tekin verður ákvörðun um að taka þátt í einhverju vígbúnaðarkapphlaupi þarf sú umræða að fara fram hér í landinu áður en það er gert. Ég er ekki hlynntur slíkri ákvörðun, svo það sé sagt.

Svo vil ég líka segja út af því sem hér hefur komið fram í umræðunni í dag að mér finnst mjög ofmælt að halda því fram að við eigum í einhverju sérstaklega góðu varnarsamstarfi við Bandaríkin. Ég lít ekki svo á að viðskilnaður Bandaríkjamanna við okkar land árið 2006 hafi verið góður eða til fyrirmyndar. Hann skildi eftir samfélag suður með sjó sem var í sárum, lamað, og skildi eftir gríðarlega mikið atvinnuleysi. Ég er ekki búinn að gleyma þeirri sögu allri. Menn verða að hafa algjörlega í huga í þessum efnum að það eru engar vinaþjóðir þegar kemur að hernaðarsamvinnu. Bandaríkjamenn eru ekki að hugsa um hagsmuni Íslendinga eða verja þá sérstaklega. Þeir gæta hagsmuna sinna og eingöngu sinna, alveg sama þó að Davíð hafi verið vinur Bush.