145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aðild Gvatemala að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna.

543. mál
[15:03]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka til máls varðandi þessa þingsályktunartillögu um fullgildingu bókunar um aðild Lýðveldisins Gvatemala að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna.

Mig langar til að grípa hér niður í formálsorð samningsins um forsendur og markmið samningsaðila við gerð hans. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Sett eru markmið um að skapa ný atvinnutækifæri, bæta lífskjör og greiða fyrir viðskiptum og tryggja fyrirsjáanleika í þeim. Einnig er áréttuð skylda ríkjanna til að berjast gegn spillingu og styðja meginreglur um gagnsæi og góða opinbera stjórnunarhætti.“

Sett eru markmið um að vernda umhverfið og tryggja hagkvæmustu nýtingu náttúruauðlinda í samræmi við markmiðið um sjálfbæra þróun og ítrekuð eru réttindi og skuldbindingar ríkjanna samkvæmt milliríkjasamningum um umhverfismál.

„Áréttaður er stuðningur ríkjanna við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna og almennu mannréttindayfirlýsingarinnar. Einnig staðfesta ríkin grundvallarreglur varðandi atvinnu manna sem settar eru fram í samningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem þau eiga aðild að.“

Þetta eru allt mjög jákvæðir hlutir og sýna okkur að samvinna er alltaf af hinu góða. Með því að deila þekkingu öðlumst við jafnframt þekkingu og að sjálfsögðu tækifæri á erlendum mörkuðum.

Eins og hæstv. utanríkisráðherra kom inn á hér áðan í sínu máli þá hefur útflutningur til Gvatemala ekki verið neinn af hálfu Íslands og innflutningur þaðan mjög takmarkaður og þá helst á landbúnaðarvörum, samkvæmt mínum upplýsingum. Þannig að þetta er klárlega tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem þau eiga eflaust eftir að nýta sér.

Mig langar einnig að grípa hér niður í þingskjalið, sem er nánar um ákvæði bókunarinnar um aðild Gvatemala að fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna, en þar segir meðal annars:

„Í bókuninni og viðaukum við hana er kveðið á um aðild Gvatemala að fríverslunarsamningnum og þann gagnkvæma markaðsaðgang fyrir vörur og þjónustu milli EFTA-ríkjanna og Gvatemala og önnur réttindi og skyldur sem af aðildinni leiðir. […]

Með aðild Gvatemala að fríverslunarsamningi EFTA við Mið-Ameríkuríkin batnar mjög aðgangur íslenskra útflytjenda að markaði Gvatemala. Þannig falla tollar niður af hvers kyns sjávarafurðum og af langflestum iðnaðarvörum. Niðurfelling tollanna fer þó að hluta til fram á allt að 15 ára aðlögunartímabilum. Hvað landbúnaðarvörur varðar þá falla tollar niður af útflutningi frá Íslandi á lambakjöti, lifandi hestum og hrossakjöti auk þess sem tollar falla niður eða lækka af ýmsum öðrum unnum og óunnum landbúnaðarafurðum. Af Íslands hálfu eru tollar af hvers kyns sjávarafurðum og iðnaðarvörum felldir niður þegar í stað og einnig eru tollar lækkaðir og felldir niður af ýmsum landbúnaðarafurðum.“

Mér finnst þetta vera mjög jákvætt mál og ég á ekki von á öðru en að hv. utanríkismálanefnd fjalli vel og vandlega um það og afgreiði það úr nefndinni með jákvæðum hætti svo að Alþingi geti þá greitt atkvæði. Ég á ekki von á öðru en jákvæðri niðurstöðu þar.