145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

endurskoðun laga um lögheimili.

32. mál
[15:14]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessari tillögu og þakka hv. flutningsmanni fyrir að leggja hana fram. Ég tek undir að það er afar mikilvægt að heimilt verði að hafa tvöfalt lögheimili, ekki síst fyrir þá sem stóðu frammi fyrir því í hruninu að þurfa að gera það, en við þekkjum þetta líka sem búum í sjávarplássum. Makinn er gjarnan á sjó annars staðar og þó að í rauninni sé ekki hægt að skikka menn til þess að færa lögheimili sitt er látið að því liggja þegar verið er að endurskipuleggja og eitthvað slíkt að það sé æskilegt. Þegar menn hafa verið á sjó til margra ára og hafa ekki verið með lögheimili í því byggðarlagi og ekki skilað sköttum þangað er farið að gera athugasemdir. Það er einn angi af því sem verið er hér að leggja til að kanna hvort ekki sé skynsamlegt að breyta því.

Við höfum líka verið að ræða jafnt búsetuform barna, að foreldrum sé ekki mismunað þegar kemur að lögheimili, hvort heldur er varðandi það að sækja sér þjónustu eða annað slíkt eða varðandi greiðslur af hálfu ríkisins eftir því hvar barnið er skráð með lögheimili. Ég man eftir að þegar tillagan var lögð fram síðast kom fram athugasemd þar sem lagt var til að starfshópur sá sem hér er nefndur mundi einnig kanna þau mál. Þó að einhverjum finnist að ekki eigi að blanda því saman þá þarf einmitt að huga að breyttum fjölskylduformum og öðru slíku, bara til að uppfæra það til nútímans, hvort sem það á eingöngu við um að fólk sinni vinnu annars staðar eða vegna einhverra annarra hluta þar sem aðili þarf kannski að sækja vinnu annars staðar meira og minna alla daga en skilar engu til sveitarfélagsins. Ég styð þetta mál því eindregið.

Ég ætti kannski að taka áskorun hv. framsögumanns og fá að gerast talsmaður tillögunnar í allsherjar- og menntamálanefnd og fylgja henni þar eftir. Eins og hv. þingmaður nefndi eru flutningsmenn tillögunnar úr öllum flokkum hér á þingi, sýnist mér, þannig að hún ætti að geta runnið nokkuð glatt í gegnum nefndina.

Ég spurði um daginn hvort kalla þyrfti til annarra umsagna eða annarrar umferðar af umsögnum, eða hvort þeir væru komnir fram sem hefðu eitthvað um þetta mál að segja. Það er í sjálfu sér nefndarinnar að meta það. Þær umsagnir sem komu um málið síðast voru allar jákvæðar. Þó að þar væru lagðar til ýmsar aðrar útfærslur voru þær almennt jákvæðar, enda er einungis verið að tala um að hér verði stofnaður starfshópur til að byrja með sem vinni áfram með þetta mál. Það ætti að vera hægt að afgreiða þetta mál tiltölulega fljótt. Ég vona svo sannarlega að það verði gert og mun ýja að því á næsta fundi nefndarinnar þegar málið verður sent út til umsagnar, ef flutningsmaður er því ekki mótfallinn.

Að öðru leyti endurtek ég að ég fagna þessu máli og held að það sé löngu tímabært að breyta þessu fyrirkomulagi. Við þekkjum svo mörg að það er til trafala og eins og rakið er ágætlega í greinargerðinni er þetta gert til þess að uppfæra lögin í takt við breytta tíma.