145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

lagaskrifstofa Alþingis.

30. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Ég held að það séu óþarfaáhyggjur hjá þingmanninum að þetta verði ekki fullfjármagnað þegar þar að kemur því að nú þegar tekur þingið til sín á fjárlögum 2016 um 3 þús. milljónir. Það gefur augaleið að lagaskrifstofa Alþingis kemur til með að hafa til lengri tíma sparandi áhrif á störf þingsins. Þegar þetta er komið í fast ferli og álitamálum fækkar og þingmenn verða meðvitaðir um að vanda þurfi til lagasetningar þá sparar þetta til langframa fjármagn. En ég tek fram að málið er ekki lagt fram sem sparnaðarfrumvarp heldur sem faglegt frumvarp til að bæta lagasetningu.

Hér er umboðsmaður Alþingis mjög til umræðu. Ég ætla þá líka að setja Ríkisendurskoðun inn í þessa umræðu því að þessar tvær stofnanir eru eftirlitsstofnanir þingsins. Vandamálið varðandi lagasetningu hjá þessum tveimur stofnunum er að þær eru úrskurðarvald eftir á. Það er þannig að umboðsmaður Alþingis tekur upp mál þar sem farið hefur verið samkvæmt lögum og þarf að úrskurða eftir á hvort brotið hafi verið á réttindum einstaklinga í samfélaginu. Eins er Ríkisendurskoðun með eftiráskoðun með fjárreiðum ríkisins. Hér er verið að leggja til að lagaskrifstofa Alþingis verði upphaflegur snertipunktur lagasetningar, að þetta sé fyrirbyggjandi stofnun til þess að leiða af sér góða lagasetningu, til að fækka ágreiningsmálum, fækka þeim málum sem þurfa að fara til dómstóla og fækka álitamálum sem umboðsmaður Alþingis þarf að takast á við. Þannig að til lengri tíma litið hefur það víðtæk áhrif, bæði faglega og ekki síst fjárhagslega, þegar málum stórfækkar vegna vandaðrar lagasetningar á grunni nýrrar lagaskrifstofu Alþingis.