145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar til þess að koma inn á skýrslu sem Ríkisendurskoðun lét frá sér í gær og í kjölfarið fylgdi áskorun margra félagasamtaka sem láta sig málefni barna og ungmenna varða.

Upphafið er svona í skýrslunni: „Stjórnvöld hafa ótvíræðar skyldur þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga.“

Í lok síðasta árs biðu tæplega 400 börn eftir þjónustu Þroska- og hegðunarstöðvarinnar sem starfar á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en þjónar í raun öllu landinu. Þar af voru 120 á biðlista göngudeildar BUGL og 208 á biðlista eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.

Það sem er alvarlegt í þessu máli er að biðtíminn getur orðið allt að eitt og hálft ár.

Ef við reiknum þetta eins og Ríkisendurskoðun gerir má gera ráð fyrir því að um 16.000 börn og unglingar hér á landi séu í þeirri stöðu að þau muni einhvern tíma þarfnast ítarþjónustu eða sérþjónustu vegna geðheilsuvanda. Ríkisendurskoðun metur það sem svo að hinn langi biðtími geti orðið til þess að vandinn verði miklu meiri og geti jafnvel leitt til þess að stór hópur barna og ungmenna endi sem öryrkjar.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir að leiðsögn stjórnvalda skorti um skipulag. Ekki hefur verið lögð fram skýr leiðbeiningaráætlun eða stefna um hvernig eigi að koma til móts við þessa þjónustuþörf. Það er búið að gera fjölda úttekta, skýrslna, aðgerðaáætlana og alls konar skjöl sem samt sem áður hafa ekki náð fram að ganga. Það þarf að tryggja aðgang að þessari þjónustu óháð búsetu og koma í veg fyrir að á milli kerfa myndist einhver grá svæði. Þessi langi biðtími sem hefur einkennt geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga er óviðunandi.

Virðulegi forseti. Við þurfum að taka höndum saman og afgreiða geðheilbrigðisstefnu sem hér liggur fyrir. Ekki bara það heldur þurfum við að sjá til þess að henni verði framfylgt og biðtími styttur svo að þeirri stöðu (Forseti hringir.) sem allt of margar fjölskyldur þessa lands standa frammi fyrir, að fá ekki þjónustu svo vikum, mánuðum og árum skiptir, fari að ljúka.


Efnisorð er vísa í ræðuna