145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Forseti. Forstjóri Landsvirkjunar segir frá því í fréttum vikunnar að hann sjái fyrir sér að innan skamms geti fyrirtækið farið að borga um 10–20 milljarða í arð af rekstri fyrirtækisins í ríkissjóð. Á móti sér hann fyrir sér að hægja á niðurgreiðslu skulda, sem hefur verið lögð töluverð áhersla á fram að þessu. Ef fréttir reynast réttar skuldar Landsvirkjun um 240 milljarða kr.

Forseti. Ég tel rétt að minna okkur á að Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki með ríkisábyrgð og ef eitthvað stórkostlegt kemur upp á, t.d. ef virkjanir eyðileggjast vegna náttúruhamfara, eru það við, skattgreiðendur, sem borgum brúsann. Menn geta rifjað upp það sem gerðist við Kröflugosið og séð að það voru skattgreiðendur sem greiddu það tjón. En nú gengur Landsvirkjun vel og þá er lag að greiða niður skuldir.

Skuldir fyrirtækisins eru nú eins og eitt stykki Icesave, til þess að setja hlutina í samhengi. Alltaf þegar Landsvirkjun hefur framkvæmdir og virkjar er það gert með lánsfé, en það eru kannski góð lán, ég þekki það ekki nógu vel. En ég tel brýnast að fyrirtækið haldi áfram að borga niður skuldir og geri það hratt. Það er miklu brýnna en að borga 10–20 milljarða sem er bara eitthvað sem við vonumst til að eiga. Við eigum frekar að borga niður skuldirnar, segi ég.

Svo er það líka annað. Ef Landsvirkjun heldur áfram að virkja eykur fyrirtækið skuldir sínar enn frekar. Það eykur líka útstreymi gjaldeyris í formi afborgana af lánum.

Ég efast ekkert um góðan tilgang forstjóra Landsvirkjunar. En það er mikilvægt fyrir okkur í þessum sal að iðka langtímahugsun. (Forseti hringir.) Við eigum ekki að vera sífellt að pæla í því hvernig við höfum það aðeins betra í núinu heldur hvernig við sköpum bjartari framtíð fyrir krakkana okkar.


Efnisorð er vísa í ræðuna