145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á þeirri alvarlegu stöðu sem íslenskir þurrkfisksframleiðendur standa frammi fyrir núna. Hún stafar af því að heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað og það hefur í för með sér að land eins og Nígería, sem við höfum selt þurrkfisk til, þ.e. skreið, þurrkaða beinadálka og hausa, getur ekki lengur keypt af okkur því að þeir hafa komið sér upp gjaldeyrishöftum sem við þekkjum. Þar að auki hafa nígerísk stjórnvöld stórhækkað innflutningstolla á þurrkaða hausa og þetta veldur því að verð til seljenda hefur lækkað um allt að 40% en neytendur þurfa að greiða hærra verð fyrir vöruna á markaði.

Það eru um það bil 20 fyrirtæki hér á landi sem sérhæfa sig í því að þurrka fisk fyrir Nígeríumarkað og eru vítt og breitt um landið. Samkvæmt lauslegri samantekt er fjöldi ársverka við þessa starfsemi hér á landi um 450 og því til viðbótar koma síðan fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í þjónustu við þennan iðnað með beinum eða óbeinum hætti. Þar má nefna tæknifræðinga, rafvirkja, málmiðnaðarmenn o.fl.

Flutningsaðilar, hvort heldur er á landi eða sjó, hafa einnig haft umtalsverða hagsmuni af þessari framleiðslu og má gera ráð fyrir að flutningsgjöld á útflutningnum einum saman séu á annan milljarð króna árlega en þá á eftir að leggja mat á innflutning.

Á síðasta ári voru flutt út um 24 þús. tonn af þurrkuðum afurðum til Nígeríu og á síðasta ári fluttu íslensk fyrirtæki sjávarafurðir þangað fyrir andvirði um 15 milljarða kr. Það er alveg ljóst að íslensk stjórnvöld þurfa að beita sér í því að opna þennan markað aftur því að ef hann lokast erum við í þeirri stöðu að hann getur verið glataður endanlega. Það er auðvitað mikill missir fyrir þjóðarbúið, hvernig sem á það er litið.


Efnisorð er vísa í ræðuna