145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

búvörusamningur.

[15:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. 140 milljarða búvörusamningur er stórkostlegt tækifæri til framfara í landbúnaði. Það er illa farið með það tækifæri í nýjum samningi þar sem að mestu leyti er framlengd úrelt niðurgreiðslupólitík. Sú pólitík skilar hvorki bændum né neytendum í landinu árangri heldur fer kostnaðurinn fyrst og fremst í milliliði og í óhagræði. Það verður að gagnrýna að hér séu ráðin tekin af Alþingi í lengri tíma en fyrr, að það verði ekki fyrr en eftir þrennar alþingiskosningar sem hægt verður að gera breytingar í þessum efnum vegna þess að samningurinn bindur fjárútlát þingsins í tíu ár á meðan að það virðast aftur vera endurskoðunarákvæði í samningnum sem geta komið í veg fyrir að þó þær litlu kerfisbreytingar sem er að finna í samningnum nái fram að ganga.

Við þurfum miklu framfarasinnaðri landbúnaðarpólitík en hér birtist. Við hljótum auðvitað að binda vonir við að úr því verði að undið verði ofan af kvótakerfinu þó að það verði ekki fyrr en á næsta áratug. En það þyrfti að gera miklu fyrr því að það gerir ungum bændum erfitt fyrir að hasla sér völl í greininni og leggur þungar byrðar á búin í kvótakaupum og í vaxtakostnaði. Gallinn við þennan samning er meðal annars sá að þrátt fyrir þetta mikla fé er ekki að sjá að rekstrarskilyrði landbúnaðarins verði miklu betri í lok samningstímans en í byrjun hans vegna þess að ekki er tekist á við vandann, menn einbeita sér ekki að því að bæta samkeppnisstöðu landbúnaðarins, það er nefnilega ekki verið að innleiða samkeppni og þau jákvæðu áhrif sem hún getur haft á greinina.

Við hvað er að fást í landbúnaði? Þar er við margvíslegan kostnað að fást sem leiðir af einokun og fákeppni. 100 millj. kr. á tíu ára tímabili á meðalmjólkurbú eru miklir fjármunir. Ég er sannfærður um að við gætum notað þá fjármuni miklu betur fyrir bændur og fyrir neytendur vegna þess að þessar 100 millj. kr. fara ekki til bænda. Þær fara í kvótakaup, þær fara í óhóflegan vaxtakostnað, þær fara í dýra úrvinnslu og þær fara í fákeppni á matvörumarkaði.

Í staðinn fyrir að takast á við þessi verkefni og gera landbúnaðinn samkeppnishæfari og bæta rekstrarskilyrði bænda eru áhrifin af því deyfð með því að halda áfram að niðurgreiða þessi vondu rekstrarskilyrði úr ríkissjóði og auðvitað líka að hluta til til þess að láta skattgreiðendur niðurgreiða verð til sjálfra sín, sem má auðvitað deila um hvort er skynsamlegt fyrirkomulag.

Það hlýtur að verða að gera þá kröfu að þegar ráðist er í samninga um svona gríðarleg fjárútlát til lengri tíma en fyrr, meiri fjármuni en fyrr, og þannig að tvö næstu kjörtímabil verður þessum fjárveitingum ekki breytt eftir að samningurinn er gerður, hafi ráðherrann sem með málaflokkinn fer víðtækt samráð þvert á flokka og við hagsmunasamtök, við neytendur, við verkalýðshreyfingu og standi fyrir lýðræðislegri umræðu. En því hefur ekki verið að heilsa. Við þjóðina og þingið hefur forsætisráðherra nýverið sagt: Þetta er búið, afgreitt mál. Við hljótum að mótmæla því, við hljótum að kalla eftir því að hér fari fram umræða. Ég treysti því að hér eigi eftir að koma inn lagafrumvörp og að þau verði hér til umræðu og geti eftir atvikum tekið breytingum.

Ég vil árétta að ég mun endurflytja við það tækifæri breytingartillögu sem við höfum flutt áður í Samfylkingunni sem lýtur að því að afnema undanþágur frá samkeppnislögum vegna þess að það er bjargföst sannfæring mín að það væri mikið framfaraskref í greininni (Forseti hringir.) að hætta að láta menn bera þennan óhemjueinokunar- og fákeppniskostnað, hvort sem er í matvöruversluninni eða milliliðastarfseminni, (Forseti hringir.) en nýta samkeppnina til framfara í landbúnaði á Íslandi.