145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

búvörusamningur.

[15:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nýir búvörusamningar hafa verið undirritaðir af hálfu stjórnvalda og forustu Bændasamtakanna og nú er það í höndum bænda sjálfra hvort þeir samþykki samninginn og Alþingis að afgreiða fjárheimildir fyrir honum.

Landbúnaður er mikilvægur í íslensku samfélagi, bæði til að tryggja matvælaöryggi og viðhalda þeirri þekkingu sem byggst hefur upp í greininni sem framleiðir nú þegar með bestu fáanlegum afurðum sem völ er á í heilnæmu umhverfi. Mikilvægt er að ná sem víðtækastri sátt um gerð búvörusamnings. Það má gagnrýna að vinna við gerð búvörusamnings til svo langs tíma, tíu ára, sé ekki unnin með aðkomu fleiri, svo sem þverpólitískt, með neytendum og þeim sem í greininni starfa. Þetta segi ég hvað sem hæstv. ráðherra segir.

Ýmis aðvörunarljós hafa kviknað í umfjöllun um samninginn, að verið sé að aftengja alla framleiðslustjórnun og ýta undir offramleiðslu sem leiðir til samþjöppunar og fækkunar hinna hefðbundnu fjölskyldubúa. Það er mín skoðun að það eigi að vera beint samhengi á milli lægra vöruverðs á búvörum til neytenda og stuðnings ríkisins við greinina í gerð búvörusamninga. Ég tel ekki að nýta eigi skattfé til þess að greiða niður íslenskar landbúnaðarafurðir í erlenda neytendur. Því er mikilvægt að framboð og eftirspurn á landbúnaðarvörum innan lands haldist í hendur. Útrás í íslenskum landbúnaði verður að byggjast sjálfstætt á raunhæfum forsendum.

Áhyggjur hafa líka komið upp um áhrif samningsins á jaðarsvæði landsins. Það eru áhyggjur sem ég tel að eigi að horfa til og skoða. Markmiðið með nýjum búvörusamningi á að mínu mati að vera að efla framþróun í greininni með sem sjálfbærustum og vistvænustum hætti, stuðla að heilnæmri gæðavöru, treysta byggð og störf í landinu og gera ungu fólki auðveldara að hefja búskap og að neytendur njóti hagstæðs vöruverðs íslenskra landbúnaðarafurða. (Forseti hringir.) Ég er ekki viss um að þessi samningur uppfylli þetta og efast mikið um það. Hann er langt frá því að vera gallalaus.