145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

búvörusamningur.

[15:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra um verklagið í kringum þetta. Er ekki rétt skilið hjá mér að þessir samningar eigi eftir að koma í þingið til umfjöllunar? Eða er þetta eingöngu samið í ráðuneytinu? Ég vona svo sannarlega að þeir komi í þingið af því að mér heyrist á öllu að þetta sé svona bland í poka, það er margt gott í þeim og annað sem er kannski ekki nægilega vel unnið í samráði við alla sem koma að jafn viðamiklu máli og þessu.

Það sem mér finnst athyglisverðast sem ég hef heyrt hér í dag er það sem fram kom í ræðu hjá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það geti verið að matvæli sem eru seld til útflutnings séu niðurgreidd. Að við, skattborgarar Íslands, séum sem sagt að niðurgreiða mat til fólks í öðrum löndum. Ég hélt að þetta ætti að vera fyrir neytendur á Íslandi.

Þá finnst mér margt athyglisvert sem fram kom í ræðu hjá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur. Það er hægt að sjá þetta út frá svo mörgum ólíkum flötum, hægt að setja á sig alls konar gleraugu. Ég hlakka mjög mikið til að fara yfir þessa samninga. Eru þeir ekki fjórir? Við þurfum nefnilega, eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir kom inn á, að losna aðeins úr viðjum íhaldsseminnar og þora að fara inn í nútímann með svo viðamikla langtímasamninga.

En ég fagna að það séu leiðir til þess að endurskoða þetta mál, ef ég skildi hv. þingmann rétt áðan, og (Forseti hringir.) vonast til þess að við fáum ítarlega umfjöllun um málið á Alþingi á eins opinn hátt og hægt er.