145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

búvörusamningur.

[16:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nefnd eru ýmis sjónarmið og rök fyrir sérstökum stuðningi við landbúnað. Matvælaöryggi, verð á landbúnaðarvörum og byggðasjónarmið eru þau algengustu.

Samfylkingin hefur lagt á það áherslu að landbúnaðarkerfinu verði breytt og að tekið verði upp árangursríkara fyrirkomulag sem styrkir byggðir, eykur frelsi bænda, gerir nýliðun auðveldari, stuðlar að nýsköpun, hagkvæmari framleiðslu og bættum hag neytenda. Krafa um skynsamlega landnýtingu, dýravelferð, sjálfbærni og umhverfisvernd ætti að vera skilyrði fyrir opinberum stuðningi.

Færa má rök fyrir því að byggðastyrkir eða landræktarsamningar eins og gerðir eru af hálfu Evrópusambandsins séu mun betur til þess fallnir að mæta byggðasjónarmiðum en búvörusamningar. Fullyrt er að hagur neytenda sé fyrir borð borinn með samningunum og að sýna megi fram á að samningurinn sé líka slæmur fyrir bændur til lengri tíma. Hvort tveggja er óásættanlegt.

Í samningnum er gert ráð fyrir að horfið verði frá framseljanlegu greiðslumarki og það er gott. En það á samt ekki að gera fyrr en eftir fimm ár og endurskoðunarákvæði gætu gert þau áform að engu. Framseljanleikinn hefur leitt til þess að opinber stuðningur sem ætlaður er til þess að skapa framboð á góðri vöru á góðu verði lendir hjá fjármagnseigendum, lánastofnunum og þeim sem hættir eru búskap. Ungur bóndi sem kaupir sig inn í kerfið er í sömu stöðu og ef enginn opinber styrkur væri í boði.

Hvað fá neytendur fyrir þá miklu fjármuni sem settir eru í búvörusamningana? Hvers vegna eru engin skref tekin sem leyfa samkeppni og það aðhald sem samkeppni getur veitt? Koma samningarnir í raun til móts við byggðasjónarmið? Eða eru það aðeins örfá svæði sem njóta góðs en samningarnir fari illa með önnur landsvæði?

Alþingi hlýtur að krefjast svara við slíkum spurningum áður en það staðfestir samninginn.