145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

búvörusamningur.

[16:10]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Flestar ef ekki allar þjóðir verja matvælaframleiðslu sína með einum eða öðrum hætti og styrkja hana vegna mikilvægis hennar að svo mörgu leyti.

Stefnan sem rekin hefur verið hér undanfarin ár sýnir að við höfum verið á réttri leið í þessum efnum. Eins og hæstv. landbúnaðarráðherra kom inn á áðan fer það hlutfall af þjóðarframleiðslu okkar stiglækkandi sem við verjum í þennan málaflokk. Það sýnir okkur að við erum að leiða landbúnaðinn á einhverjum tíma inn í þróun þar sem hann er að verða sterkari og öflugri og burðugri til að standa á eigin fótum. Það hlýtur að vera mjög jákvætt.

Nýr samningur gefur fjölmörg tækifæri í íslenskum landbúnaði. Hann styður við aukna fjölbreytni sem hlýtur að vera mjög jákvætt. Hér var áðan nefnt kynjahlutfall í landbúnaði og við getum haft áhyggjur af því. Er þetta ekki einmitt leiðin til þess að taka á þeim þætti? Við getum nefnt lífræna ræktun sem núna er komið sérstaklega inn á.

Ráðherra lagði sig á síðustu vikum í líma við að reyna að leysa þann ágreining sem var uppi innan bændastéttarinnar og það virðist hafa tekist vel til.

Nýr tollasamningur sem landbúnaðarráðuneytið hefur nýlega gert er auðvitað hluti af þessu þar sem við erum að auka möguleika íslensks landbúnaðar til aukins útflutnings.

Það er mikilvægt að við séum með málefnalega umræðu. Það kemur svo sem ekki á óvart að hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar skuli það ekki vera viðhaft í þessu frekar en öðru þegar hér er án útskýringa talað um að þetta fari allt í óþarfa milliliði og að hagur neytenda sé fyrir borð borinn og þetta sé slæmur samningur fyrir bændur. Hvað er stefna þessa flokks sem tvívegis á síðasta kjörtímabili framlengdi sjö ára samninginn — tvívegis á síðasta kjörtímabili? Hvar eru tillögur þeirra í þá átt sem talað er svo hátt um?

Ég er (Forseti hringir.) ánægður að heyra að af hálfu fulltrúar annarra flokka hér virðist umræðan vera málefnaleg og (Forseti hringir.) við erum sameinuð í því að reyna að ná ásættanlegri niðurstöðu í þessu. Samfylkingin er þarna svolítið sér á báti og það kemur svo sem ekki á óvart.