145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

búvörusamningur.

[16:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Í áratugi höfum við jafnaðarmenn bent á að kvótakerfið er dýrt bæði fyrir bændur og neytendur. Það er fagnaðarefni að ráðherra Framsóknarflokksins skuli nú fallast á þau sjónarmið og átta sig á því hversu dýrt kvótakerfið í landbúnaði hefur verið bæði fyrir bændur og neytendur og nú loksins á að afnema það. En það er sama hætta við þennan langa búvörusamning og við hið vonda kvótakerfi í landbúnaði, að hann leiði til aukinnar skuldsetningar landbúnaðarins og hærri vaxtakostnaðar.

Hér er bara verið að framlengja í meginatriðum gamaldags niðurgreiðslupólitík sem menn fara svo með í bankann og taka út lán á á framtíðina. Eftir situr búrekstur sem áfram býr við rekstrarskilyrði sem eru miklu verri en í löndunum í kringum okkur. Í hverju felast þessi vondu rekstrarskilyrði? Þau felast í því að íslenskt bú þarf að borga kostnað við kvótakaup sem menn þurfa til að mynda ekki að gera í Svíþjóð. Og íslenskt bú þarf að borga miklu hærri vexti en búin í löndunum í kringum okkur. Það er það sem við jafnaðarmenn eigum við þegar við segjum að þessi gamaldags miðstýringarniðurgreiðslupólitík gagnist hvorki bændum né neytendum. Hún gagnast milliliðum og hún leggur óhóflegan vaxtakostnað á greinina. Hún kann að gagnast einum og einum aðila sem ákveður að fara út úr greininni og skilja landbúnaðinn eftir skuldsettan, en hún er byrði að bera fyrir unga bændur um langa framtíð. 140 milljarða eigum við að nýta miklu betur en hér er gert, til nýsköpunar og til framfara (Forseti hringir.) í íslenskum landbúnaði, en ekki þessara gamaldags vinnubragða.