145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

búvörusamningur.

[16:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Vegna orða síðasta ræðumanns, þess sem hóf umræðuna, vil ég segja að hann var að lýsa kerfinu sem menn eru að fara út úr. Hann var ekki að lýsa samningnum eins og hann lítur út, hvað þá hvernig staðan verður í lok þessa tíma. Hann var að lýsa því að kvótakerfið væri dýrt og það er rétt en það tekur tíma að komast út úr því. Í Evrópusambandinu, fyrirheitna landi Samfylkingarinnar, tóku menn þá ákvörðun að fara út úr kvótakerfinu á 15 árum. Það er lengri tími en við gefum okkur. Menn héldu áfram í 15 ár með það sem þeir voru með og hættu með kvótakerfið í fyrra.

Við erum að leggja hér upp með samning sem er sóknarsamningur, það þýðir fjölbreyttari landbúnaður. Það er nýsköpun í honum og fjárfestingarstuðningur. Það er sannarlega verið að auka við lífræna ræktun. Hún var mjög lítið studd. Það eru áform um að heimilt verði að færa á milli liða vegna áherslna í samningnum. Þetta er lifandi plagg. Hann er til langs tíma. Það eru tvær mikilsverðar endurskoðanir á honum. Það er hægt að auka fjármuni í þær greinar og þau atriði samningsins sem þurfa á stuðningi að halda eftir fjögur, fimm eða sex ár, eftir því hvernig tímarnir líða fram.

Það er einn áhugaverður þáttur í þessum samningi sem ég kom ekki að áðan, og hann er kannski í fyrsta skipti í samningi ríkisins. Í honum er tekið á kynjamálum, það er sem sagt jafnréttisákvæði um að bæði karl og kona geti fengið tekjurnar úr þessum samningi. Það er vegna þess að við þekkjum að það hefur ekki verið þannig. Hér er verið að taka á mörgum þáttum. Loftslagsmálin eru þarna inni líka þó að þau séu ekki orðuð sérstaklega. Landgreiðslurnar eru hugsaðar til þess að minnka kolefnisspor landbúnaðarins í heild sinni, auka heimaaflað fóður. Hér er verið að gera miklar breytingar og í lok samningstíma þessa tíu ára samnings verður umhverfið miklu betra fyrir framtíðina, en það hefst strax á fyrsta degi þessa samnings.

Ég verð aðeins undir lokin að stela tíu sekúndum, herra forseti, til að tala um verklagið. Samningarnir fara nú í kynningu hjá bændum, svo koma frumvarpsbreytingar, drög að breytingum, (Forseti hringir.) bandormur, sem snúa að búvörubreytingum, búnaðarlagasamningi og tollasamningi, sem svara því sem þarf að svara í samningunum. Og auðvitað koma samningarnir sem fylgigögn inn til þingsins.