145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Í fjarveru framsögumanns málsins af hálfu hv. utanríkismálanefndar, hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar, mun ég gera grein fyrir áliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um fríverslunarsamning við Japan.

Nefndin hefur fjallað um málið, en þingsályktunartillagan er nú til umfjöllunar í nefndinni í annað sinn. Samhljóða tillaga var afgreidd úr hv. utanríkismálanefnd á 144. löggjafarþingi en var ekki tekin til síðari umræðu, þá var þetta 127. mál. Nefndin styðst við þá umfjöllun sem málið fékk þá og byggir þetta nefndarálit á þessari fyrri afgreiðslu.

Við umfjöllun á 144. löggjafarþingi fékk nefndin á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneytinu. Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, utanríkisráðuneyti og Verslunarráði Íslands í Japan. Þá barst einnig sameiginleg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu.

Þessi þingsályktunartillaga felur í sér að ríkisstjórninni verði falið að hefja undirbúning fríverslunarsamnings við Japan á grundvelli yfirlýsinga japönsku ríkisstjórnarinnar um að auka hlut fríverslunar í milliríkjaviðskiptum.

Japan er mikilvægur markaður fyrir íslenskar afurðir og þá ekki síst á sviði sjávarútvegs. Einnig flytja Íslendingar inn margvíslegar vörur frá Japan. Fríverslunarsamningur milli landanna mundi því bæta lífskjör þjóðanna beggja með lægra vöruverði og aukinni framleiðslu og veltu í viðskiptum.

Japönsk stjórnvöld hafa á síðasta áratug opnað viðskipti sín við útlönd smám saman með því að ráðast í gerð fríverslunarsamninga. Þá hefur núverandi ríkisstjórn Japans lagt fram skýr og víðtæk áform um opnun á viðskiptum við umheiminn. Er þar sérstaklega vísað til þjóða sem hafa yfir miklum auðlindum að ráða.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að íslensk stjórnvöld hafi lengi falast eftir fríverslunarviðræðum við Japan en án árangurs. Þá hefur einnig verið unnið að slíkum samningum á vettvangi EFTA, en niðurstaða þeirra umleitana var gerð tvíhliða samnings milli Japans og Sviss. Nefndin tekur undir þau rök að breyttar aðstæður feli í sér tækifæri fyrir Ísland sem beri að láta reyna á af fullum þunga. 60 ára afmæli stjórnmálasambands ríkjanna tveggja á þessu ári er gott tilefni og hvatning til að hefja viðræður við fyrsta tækifæri.

Nefndin leggur því til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta nefndarálit rita framsögumaður nefndarinnar sem átti að vera hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, en hann er af lögmætum ástæðum forfallaður hér í dag; sú sem hér stendur; Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður nefndarinnar, og hv. þingmenn Karl Garðarsson, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson.

Hv. þingmenn Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir voru hins vegar fjarverandi við afgreiðslu málsins.