145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

Hús íslenskra fræða.

[15:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að nýta mína mínútu hér í almennar umræður um efnahagsmál. Við vitum alveg nákvæmlega hvaða leið núverandi hæstv. ríkisstjórn valdi í þeim efnum og valdi að fara fremur í skattalækkanir en að fara í styrkingu innviða og halda áfram þeirri uppbyggingu sem hafin var undir lok síðasta kjörtímabils. Ég ætla ekki í umræðu um það.

Mér finnst það ekki nægjanlegt, herra forseti, að fá þau svör að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar líti málið jákvæðum augum. Auðvitað er það jákvætt svo langt sem það nær, en ég ímynda mér að hæstv. forsætisráðherra hljóti að geta gefið okkur skýrari svör um hvort til standi til dæmis að veita Happdrætti Háskóla Íslands, sem er reiðubúið með fjármuni í verkefnið, heimild til að nýta þá fjármuni þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir næsta sumar. Það er hægur vandi að veita slíka heimild ef pólitískur vilji er til þess að standa almennilega að umgjörðinni fyrir íslensk fræði og handritin okkar, okkar merkasta menningararf. Þetta mál er orðið okkur til skammar. Hola íslenskra fræða er okkur til skammar og ég trúi ekki öðru en að hæstv. forsætisráðherra muni beita sér, (Forseti hringir.) eftir að hafa lagt þetta beinlínis til, þó að sú tillaga hafi horfið, (Forseti hringir.) fyrir því að hægt verði að hefja framkvæmdir á þessu ári.