145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

hagnaður bankanna og vaxtamunur.

[15:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Telur forsætisráðherra að yfir eitt hundrað milljarða hagnaður bankanna á liðnu ári sé eðlilegur? Hefur ríkisstjórn hans gripið til einhverra ráðstafana til að verja fólk og fyrirtæki fyrir óhóflegum vaxtamun og gjaldtöku í bankakerfinu? Eða hyggst ríkisstjórnin það sem eftir lifir kjörtímabilsins grípa til einhverra aðgerða til að verja fólk og fyrirtæki fyrir óhóflegum vaxtamun og gjaldtöku í bankakerfinu?

Ég spyr, virðulegur forseti, vegna þess að nú er runninn upp sá árvissi tími að menn býsnast mikið yfir ofsagróða í bankakerfinu. En það gerist lítið annað en að menn býsnast yfir því frá einu ári til annars.

Ég held að við getum öll verið sammála um að það skiptir máli að gera eitthvað í því að breyta þessum leikreglum, fólkinu og fyrirtækjunum í landinu í hag. Þess vegna inni ég hæstv. forsætisráðherra eftir því til hvaða ráðstafana ríkisstjórn hans hefur gripið í því skyni, eða hyggst grípa til ef ekki hefur unnist tóm til þess enn þá.

Ég vil líka spyrja forsætisráðherra um þá fjármuni sem nú koma með óbeinum hætti aftur til almennings, og má líta á sem ákveðinn búhnykk fyrir ríkissjóð; hvort hann sjái með einhverjum hætti fyrir sér að almenningur muni njóta þess sérstaklega aftur sem hann hefur greitt inn í þennan mikla hagnað í gegnum ríkissjóð, hvort einhverjar sérstakar hugmyndir séu uppi í því sambandi.

Þá spyr ég hann sérstaklega út í yfirlýsingar fjármálaráðherra um að lækka eigi eigið fé bankanna og taka þá fjármuni inn í ríkissjóð, hvort stjórnarflokkarnir séu sammála um þetta og hvort verja eigi þessum fjármunum í einhver verkefni. Því tengt spyr ég hvort það sé ekki varhugavert (Forseti hringir.) að minnka eiginfjárhlutfallið í bönkunum svona skömmu eftir að hér varð sá mikli ófarnaður sem varð í efnahagshruninu 2008.