145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

hagnaður bankanna og vaxtamunur.

[15:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er svolítið merkilegt hvað hv. þingmenn núverandi stjórnarandstöðu eru allt í einu orðnir viðkvæmir fyrir sagnfræði og því einu, til dæmis í þessu tilviki, að minnt sé á hvernig sú staða sem hv. þingmaður bölsótast nú yfir varð til. Það hlýtur að vera nauðsynlegt að ræða það til að setja hlutina í samhengi.

Það er líka ágætt að rifja upp söguna til að sjá að þrátt fyrir allt er hægt að bregðast við, það er hægt að bæta úr eins og núverandi ríkisstjórn hefur svo sannarlega gert í bankamálunum með því að ná að endurheimta þá þannig að umræddur hagnaður renni ekki úr landi til kröfuhafa heldur aftur til almennings.

Hvað varðar afskipti stjórnvalda af bönkunum þekkir hv. þingmaður það fyrirkomulag sem sett var upp í þeim efnum með stofnun Bankasýslu ríkisins. Hún var beinlínis til þess ætluð að stjórnmálamenn hefðu ekki bein afskipti af bönkunum. Það má velta því fyrir sér hvort breyta eigi því fyrirkomulagi, en innan þessara marka er engu að síður unnið að endurskoðun eigendastefnu ríkisins í þessum bönkum. Í þeirri stefnu munu menn örugglega sjá áherslu á að við höldum áfram á sömu braut þannig að (Forseti hringir.) fjármálakerfið þróist í þá átt að vinna fyrir samfélagið allt frekar en að vera gróðamylla fyrir erlenda kröfuhafa.