145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

uppbygging ferðamannastaða og samgöngukerfis.

[15:26]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Á sunnudaginn fyrir viku síðan komu 4 þús. ferðamenn í Reynisfjöru. Það er sambærileg umferð ferðamanna núna um þessar mundir og sumarið 2012, og það á við um eiginlega allt Suðurland. Í morgun birti Fréttablaðið fréttir þess efnis að það stefni ekki í 20% fjölgun ferðamanna eins og verið hefur ár frá ári síðustu þrjú árin, heldur næstum því 40%. Það er mér augljóst að ríkisstjórnin öll og hæstv. fagráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hafa ekki ráðið við það verkefni sem við blasir í þessum efnum.

Þegar við horfum framan í það að aukningin verður jafn mikil og þessar spár gera ráð fyrir veltir maður fyrir sér: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að mæta þessu? Hvernig ætlar hún að bregðast við þeim gríðarlega fjölda sem stefnir í að komi hingað á þessu ári? Það er augljóst að þá þarf að taka til hendinni þegar kemur að uppbyggingu ferðamannastaða, hvað varðar öryggi og hvað varðar það að umgangast þá með sjálfbærum hætti. Það þarf þjóðarátak þegar kemur að uppbyggingu samgöngumála. Það er ljóst og má ráða af samtölum sem ég hef átt við löggæslumenn á Suðurlandi að mesta hættan sem steðjar að ferðamönnum er hversu þröngir vegirnir eru og hversu mikil og þung umferðin er orðin í mjög varhugaverðum aðstæðum.

Því er spurt: Hvaða áætlanagerð er í gangi hjá hæstv. ríkisstjórn til að mæta þessum tíðindum, sem eru að mörgu leyti auðvitað mjög ánægjuleg? Það ríður á að menn klúðri ekki þeirri stöðu (Forseti hringir.) sem upp er komin með því að einfaldlega gera ekki neitt.