145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

skýrsla um öryggi á ferðamannastöðum.

[15:39]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þarna tek ég heils hugar undir með þingmanninum. Það er nákvæmlega það sem liggur að baki þeirri vinnu sem við erum að inna af hendi núna, þ.e. verkin sem við erum öll sammála um að þarf að vinna. Við höfum verið sammála lengi en enginn hefur tekið af skarið og samræmt vinnubrögð til að við getum látið verkin tala.

Vegvísir í ferðaþjónustu, sem kynntur var í október, er ekki eitthvert plagg sem varð til á skrifstofunni hjá mér. Hann er afrakstur mikils samtals. Það komu að minnsta kosti þúsund aðilar víðs vegar um landið með beinum hætti að þeirri aðgerðaáætlun og er afar ánægjulegt að finna samhljóminn.

Ég var á stórri sýningu í morgun í Hörpu um ferðaþjónustuna, á ráðstefnu og sýningu. Ferðaþjónustan og fyrirtækin sem eru þar og samtök þeirra eru algjörlega einhuga með okkur í þessari vinnu. Það er lykilforsendan (Forseti hringir.) að við séum búin að ná ríkinu, sveitarfélögunum, sem öll fara með hlutverk, og greininni sjálfri saman til að fleiri skýrslur lendi ekki ofan í skúffu.