145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

framlög í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands.

212. mál
[15:44]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um mikilvægi þess að fjárfesta í háskólum og í rannsóknum og sjáum það á þeirri miklu aukningu sem orðið hefur í framlögum til rannsókna og þróunarstarfs á síðustu árum.

En hvað varðar hina eiginlegu fyrirspurn hv. þingmanns þá er því til að svara að fulltrúar forsætisráðuneytisins, Alþingis, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Háskóla Íslands hafa í sérstökum starfshópi, sem hv. þingmaður vék að um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands, fjallað um málið og ákveðið að starfi yrði frestað tímabundið á meðan lokið væri vinnu við heildarstefnumótun fyrir háskólakerfið í heild. Sú vinna er unnin á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur nú að heildarstefnu fyrir háskólakerfið í góðu samráði við háskólana. Áætlað er að stefnan liggi fyrir nú í vor og er efld fjármögnun háskólanna, í takt við stefnu Vísinda- og tækniráðs, lykilþáttur í vinnunni. Þegar stefnan liggur fyrir mun gefast svigrúm til að skoða hvernig Aldarafmælissjóðurinn, sem snýr eingöngu að Háskóla Íslands, muni rúmast best innan markmiða um heildareflingu kerfisins.