145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

framlög í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands.

212. mál
[15:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er allt gott við það að gera heildarstefnu fyrir fjármögnun allra háskólanna. Ég furða mig samt sem áður á því varðandi þessa sérstöku gjöf, Aldarafmælissjóðinn, sem samþykktur var á þingi að ég held með öllum greiddum atkvæðum, að ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið, skuli ákveða að standa ekki við loforð og að Háskóli Íslands, sem er flaggskip allra háskólastarfsemi hér á landi, skuli ekki fá þá peninga sem Alþingi hét honum og það eigi að bíða eftir einhverju öðru. Við vitum öll að háskólann skortir fé og ég vil þess vegna lýsa bæði furðu minni og vonbrigðum yfir því hvernig farið hefur verið með þennan afmælissjóð.