145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

vinnuheimilið að Kleppjárnsreykjum o.fl.

248. mál
[15:53]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr í fyrsta lagi hvort til greina komi að vistheimilanefnd taki til skoðunar mál vinnuheimilisins að Kleppjárnsreykjum þar sem ungar stúlkur voru vistaðar, eins og segir í fyrirspurninni.

Spurt er um vistheimilanefnd en forsætisráðherra var með lögum nr. 26/2007 heimilað að setja á fót nefnd til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn sem ekki voru lengur starfandi við gildistöku laganna. Markmið stofnunar nefndarinnar og meginverkefni hennar voru samkvæmt 1. gr. laganna eftirtalin:

1. Að lýsa starfsemi viðkomandi stofnunar, hlutverki hennar í barnaverndar- og uppeldismálum og tildrögum þess að börn voru vistuð þar á því tímabili sem um ræðir.

2. Að leitast við að staðreyna eins og kostur er hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á stofnuninni hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi meðan á dvölinni stóð.

3. Að lýsa því hvernig opinberu eftirliti með viðkomandi starfsemi var háttað.

4. Að leggja grundvöll að tillögum til stjórnvalda um frekari viðbrögð ef ástæða þætti til.

Með erindisbréfi forsætisráðherra 2. apríl 2007 var nefndinni í fyrstu falið að kanna starfsemi vistheimilisins Breiðavíkur í Rauðasandshreppi. Í kjölfar skýrslu nefndarinnar um starfsemi Breiðavíkurheimilisins og tillagna hennar um viðbrögð stjórnvalda var nefndinni hinn 11. apríl 2008 falið með nýju erindisbréfi að taka með almennum hætti afstöðu til þess hvaða stofnanir féllu undir gildissvið laga nr. 26/2007 og afmarka nánar það tímabil sem nefndin beindi sjónum sínum að, m.a. í ljósi gildandi barnaverndarlöggjafar á hverjum tíma.

Nefndin tók ákvörðun um að kanna starfsemi eftirtalinna stofnana og skilaði þremur áfangaskýrslum um þær: Heyrnleysingjaskólinn í Reykjavík, vistheimilið Kumbaravogur við Stokkseyri, skólaheimilið Bjarg á Seltjarnarnesi, vistheimilið Reykjahlíð í Mosfellssveit, heimavistarskólinn Jaðar í Elliðavatnslandi, upptökuheimili ríkisins, unglingaheimili ríkisins og vistheimilið Silungapollur. Starfsemi þessara heimila lauk á tímabilinu 1967–1994 fyrir utan Heyrnleysingjaskólann sem var starfræktur til ársins 2002.

Í fyrstu skýrslu vistheimilanefndar þar sem fjallað var um starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979 er að finna almenna umfjöllun um opinberar uppeldisstofnanir. Sagt er frá því að eftir gildistöku bráðabirgðalaga nr. 122/1941, um eftirlit með ungmennum o.fl., hafi verið sett á laggirnar uppeldisheimili fyrir stúlkur að Kleppjárnsreykjum og að starfsemi þess hafi varað í um tíu mánuði. Í viðauka við skýrsluna er að finna stutta umfjöllun um heimilið að Kleppjárnsreykjum og þar kemur fram að alls hafi 14 stúlkur verið vistaðar þar um lengri eða skemmri tíma. Þar segir einnig að ljóst sé að barnaverndarráði Íslands hafi ekki þótt mikið til starfseminnar koma.

Í sjálfu sér væri mögulegt að fella könnun á starfsemi uppeldisheimilisins að Kleppjárnsreykjum undir lög nr. 26/2007 sem vistheimilanefnd starfar eftir. Þar með væri þó aðeins einn angi þessa máls skoðaður.

Eins spyr hv. þingmaður í öðru lagi hvort til greina komi að rannsökuð verði framganga stjórnvalda gagnvart stúlkum sem áttu samskipti við hermenn á hernámsárunum hvað varðar njósnir, yfirheyrslur og meðferð. Slík rannsókn gæti ekki fallið undir verkefni vistheimilanefndar að óbreyttum lögum nr. 26/2007. Ég teldi því eðlilegra að skoðað yrði hvernig best mætti haga skoðun á þessum málum í heild sinni og að hún yrði ekki afmörkuð við starfsemi Kleppjárnsreykja. Sýnist mér að þar þurfi víðtækara umboð en vistheimilanefnd hefur samkvæmt gildandi lögum.