145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

vinnuheimilið að Kleppjárnsreykjum o.fl.

248. mál
[15:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Hann hefur haft tíma síðan 15. október til að kynna sér þetta mál því að þá lagði ég þessa fyrirspurn fram. Hæstv. forsætisráðherra bendir réttilega á að þarna þyrfti líklega víðtækara umboð, enda spyr ég annars vegar um vistheimilið að Kleppjárnsreykjum og hins vegar þær rannsóknir og yfirheyrslur sem stóðu yfir og fólu meðal annars í sér að ungar konur voru sendar í læknisskoðun gegn vilja sínum til að kanna hvort þær hefði sofið hjá eða ekki og hvort meyjarhaft þeirra væri rofið.

Þarna var í gangi mjög undarleg meðferð samfélagsins á ungum konum og konum á öllum aldri. Þó að við setjum okkur í þau spor að viðurkenna að tímarnir hafi breyst sem og viðhorf samfélagsins er þetta einmitt nokkuð sem við hljótum að velta fyrir okkur hvort hafi getað talist eðlileg viðbrögð á sínum tíma. Hæstv. forsætisráðherra lauk máli sínu á því að segja að vistheimilanefnd þyrfti þá víðtækara umboð, það þyrfti lagabreytingu til.

Ég spyr því bara: Kemur það til greina? Ætlar hæstv. forsætisráðherra, nú þegar hann hefur haft nokkra mánuði til að velta þessum málum fyrir sér, að beita sér fyrir því? Finnst hæstv. forsætisráðherra eðlilegt að við rannsökum þetta með einhverjum hætti? Það þarf ekki að vera í formi rannsóknarnefndar. Ég get ímyndað mér líka að það mætti óska með tilkomu einhvers konar samkeppnissjóðs eftir rannsóknarverkefnum á þessu sviði. Eitthvað slíkt kæmi til greina. Telur hæstv. forsætisráðherra að það eigi að skoða þessi mál nánar en gert hefur verið? Finnst honum ástæða til að stjórnvöld beiti sér fyrir því með einhverjum hætti, hvort sem er í gegnum opinbera rannsóknarnefnd eða með einhverju sérstöku eyrnamerktu fjármagni til slíkra rannsókna?