145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

brottflutningur íslenskra ríkisborgara.

348. mál
[16:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það varð talsverð umræða síðastliðið haust eða í vetrarbyrjun þegar Hagstofan birti uppgjör á búferlaflutningum, eða jöfnuði eftir fyrstu þrjá ársfjórðungana, fyrstu níu mánuði ársins, og í ljós kom að aftur hallar verulega á ógæfuhliðina hvað það varðar að mun fleiri íslenskir ríkisborgarar flytjast frá landinu en flytjast til þess.

Það sem vekur sérstaka athygli við þetta er að nú gerist þetta á tímum mjög minnkandi atvinnuleysis og ágæts hagvaxtar. Hér virðist því vera um að ræða þróun sem er svolítið að fara í aðra átt en við höfum átt að venjast þar sem mjög neikvæð tímabil í búsetuflutningum til og frá landinu hafa oftast tengst niðursveiflum í hagkerfinu eða tímabundnum erfiðleikum, síldarbresti eða öðru slíku. Þegar betur hefur árað og betur hefur gengið í atvinnulífinu, atvinnuleysi verið minna og hagvöxtur, hefur þetta síðan leitað jafnvægis.

Langtímamyndin er þó sú að við töpum að meðaltali einhverjum hluta hvers árgangs úr landi og fólksfjölgunin samanstendur þá af þeim sem ekki flytja burtu og svo þeim sem flytjast til landsins með erlent ríkisfang.

Nú hefur Hagstofan birt tölur fyrir fjórða og síðasta ársfjórðung ársins 2015 og því miður er þar enn staðfest að jöfnuðurinn er neikvæður. Það eru að vísu jafnan mun minni hreyfingar á fjórða ársfjórðungnum og fyrsta ársfjórðungi. Þær eru meira bundnar við vor- og haustmánuðina. En eftir sem áður er jöfnuðurinn neikvæður. Árið í heild kemur þá þannig út að tæplega 1.300 fleiri hafa flutt frá landinu en flutt til þess sem eru með íslenskt ríkisfang.

Upp undir helmingur þessa hóps er á aldrinum 21–30 ára, milli 550 og 600 af þessum tæplega 1.300 eru á þeim aldri. Auðvitað er það ekki endilega þannig sem við viljum sjá hlutina. Ég hef því lagt fram, reyndar fyrir þó nokkru, fyrirspurn fyrir hæstv. forsætisráðherra þar sem ég spyr hverjar hann telji vera helstu skýringar á því að nú stórvex brottflutningur íslenskra ríkisborgara á nýjan leik tvö ár í röð eftir að við náðum nokkurn veginn jöfnuði árið 2013. Maður var farinn að trúa því að við værum búin að vinna okkur út úr þeim vanda sem blasti við fyrst eftir hrunið.

Í öðru lagi spyr ég hvort forsætisráðherra telji að ástandið í húsnæðismálum, ófremdarástand á leigumarkaði og skortur á möguleikum fyrir ungt fólk að komast yfir húsnæði á viðráðanlegum kjörum sé þarna þáttur. Ég spyr hvort fyrir liggi greining á aldri og menntunarstigi þeirra sem eru að flytja á brott og samanburður við landsmeðaltal. Ég spyr hvort ríkisstjórnin hafi tekið þessi mál til umræðu, skoðunar, hvort að vænta (Forseti hringir.) sé einhverra aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar. Væntanlega er þetta ekki svona sem við viljum sjá þetta baráttulaust til framtíðar litið, að jafnvel þegar vel árar í þjóðarbúskapnum séum við samt að tapa í stórum stíl fólki úr landinu og ekki síst ungu fólki.