145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

framkvæmd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

505. mál
[16:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka skýra og ágæta spurningu. Ríkisstjórnin hefur tekið þetta mál formlega til umfjöllunar. Forræði og utanumhald með eftirfylgni markmiðanna verður á hendi forsætisráðuneytisins í nánu samstarfi við utanríkisráðuneytið.

Stefnuráð Stjórnarráðsins, þar sem sæti eiga fulltrúar allra ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, mun koma að eftirfylgninni og jafnframt er gert ráð fyrir því að ráðherranefnd um samræmingu mála muni fjalla um málið eftir þörfum.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar er lögð þung áhersla á mikilvægi öflugrar eftirfylgni með framkvæmdinni í heild sinni með aðkomu allra ráðuneyta og annarra viðeigandi stjórnvalda og einkaaðila sem að málum þurfa að koma.

Sem fyrsta skref í framangreindri vinnu hefur verið ákveðið að ráðast í greiningu á því hvernig Ísland stendur gagnvart einstökum heimsmarkmiðum og undirmarkmiðum út frá hagtölum og mótaðri stefnu.

Afurð vinnunnar verður greiningarskýrsla sem inniheldur tillögur að áherslum Íslands og forgangsröðun við framkvæmd heimsmarkmiðanna næstu árin og með hliðsjón af sambærilegri vinnu annarra landa.

Eftirfylgni með markmiðunum á alþjóðavettvangi verður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og þar mun Ísland eins og önnur ríki taka virkan þátt.

Á ráðherrafundi í júlí næstkomandi munu nokkur aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Noregur og Finnland, fara í gegnum nokkurs konar rýni að eigin frumkvæði og munu íslensk stjórnvöld horfa til þess hvernig þar hefur tekist til.

Hvað varðar fyrirkomulag innan lands þá er það skýr vilji stjórnvalda að vinna við framkvæmd markmiðanna verði fyrir opnum tjöldum og að sem flestir úr samfélaginu geti tekið þátt í að fylgja þeim eftir. Þá munu ráðherrar jafnframt gera þinginu grein fyrir framvindu mála eftir því sem óskað er og tilefni gefst til.