145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

innleiðing nýrra náttúruverndarlaga.

468. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef hug á að fá upplýsingar frá hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um innleiðingu nýrra náttúruverndarlaga. Eins og fram kom í fyrirspurn minni til munnlegs svars spyr ég í fyrsta lagi hvað líði innleiðingu laganna yfir höfuð, því að það lá fyrir með töluvert löngum fyrirvara vegna þess hvernig lögin komu til og eins og við þekkjum var töluverður aðdragandi að því. Við vissum lengi vel hver uppistaða laganna yrði þegar Alþingi gengi frá þeim, og á ég þá sérstaklega við friðlýsingarflokka og annað það breytta utanumhald sem af lögunum leiddi.

Í öðru lagi vil ég spyrja um áhrif laganna á einstakar stofnanir ráðuneytisins, verksvið þeirra og viðfangsefni. Eins og gefur að skilja er ég þar fyrst og fremst að hugsa um Náttúrufræðistofnun Íslands, hlutverk og verkefni þeirrar stofnunar sem breytist að nokkru leyti með tilkomu laganna, en ekki síður áhrif á Umhverfisstofnun og þau verkefni sem sú stofnun hefur með höndum.

Í þriðja lagi spyr ég, vegna þeirra miklu, víðtæku áhrifa sem náttúruverndarlög hafa á samfélagið í heild eins og mátti svo vel ráða af viðbrögðum almennings í umræðunni, um kynningu á þeim breytingum sem lögin hafa í för með sér; í fyrsta lagi fyrir sveitarfélög, í öðru lagi fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem hafa töluverða snertifleti við náttúruverndarlög, í þriðja lagi ferðafélög og í fjórða lagi almenna kynningu, þ.e. fyrir almenning allan í samfélaginu.

Ég hef ekki orðið vör við að ráðuneytið hafi sett í gang neina slíka áætlun um þessa innleiðingu eða með hvaða hætti gerbreytt náttúruverndarlög á Íslandi munu hafa áhrif á daglegt líf og umgengni manna við íslenska náttúru. Því spyr ég ráðherra þeirra spurninga sem ég hef hér gert grein fyrir.

Mig langar að bæta við einni spurningu sem ég lét ekki fylgja með í minni skriflegu fyrirspurn til hæstv. ráðherra en væntanlega hefur hún þó svör á reiðum höndum. Það er varðandi framkvæmd bráðabirgðaákvæðisins sem samþykkt var varðandi almannaréttinn.