145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

styrkir og uppbætur til bifreiðakaupa hreyfihamlaðra.

516. mál
[17:07]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þótt við séum kannski aðeins á undan hvor annarri hérna, þá held ég að það sé mjög mikilvægt að ræða um þetta.

Mér fannst líka óvanalegt og það er kannski stundum þannig að fá tillögur eins og við fengum frá nefndinni þar sem hugað er jafn mikið að því að tryggja að peningarnir nýtist eins vel og hægt er. Við fáum oft stærri tillögur, þó að þarna sé verið að tala um nokkur hundruð milljónir, þegar við fáum skýrslur í velferðarráðuneytinu. Þarna eru mjög praktískar hugmyndir um úrbætur. Að hluta til getur það verið eins og ég nefndi bara það hvernig við auðveldum ferlið í stjórnkerfinu, t.d. að færa ákveðin verkefni milli stofnana, og annað snýr síðan að hækkun á fjárhæðum eins og hér var nefnt og einhvers konar útvíkkun á fyrirkomulaginu.

Við erum að beita okkur fyrir því að fá almennt meira fjármagn inn í almannatryggingarnar. Þetta er einn af þeim þáttum sem við erum að huga að. Það á síðan eftir að koma í ljós og mun skýrast núna þegar við leggjum fram voráætlunina samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál um hver sýn okkar er varðandi útgjöldin og svo að sjálfsögðu enn frekar þegar fjárlögin koma fram í haust.

Ástæðan fyrir því að ég vildi koma hér aftur upp er ekki síst sú að fá að nefna samgöngustyrkina. Mér fannst þetta vera mjög áhugaverð hugmynd og nálgun hjá nefndinni. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við horfum til fyrirkomulagsins að við séum að stuðla að samþættingu, ekki aðgreiningu. Þetta hefur maður líka séð hjá Strætó sem heldur utan um ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu, mér skilst að eitt af því sem þeir hafa verið að horfa meira til sé að geta hjálpað fötluðu fólki og stutt fatlað fólk til þess að nýta sér almenningssamgöngurnar almennt, ekki vera í sérstökum bílum, heldur að geta að sjálfsögðu bara tekið strætó eins og ófatlað fólk og njóta sama (Forseti hringir.) frelsis og ófatlaðir einstaklingar gera. Ég held að þetta væri hluti af því að styðja það.