145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

endurskoðun á reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna.

518. mál
[17:13]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina um það hvort ég hyggist láta endurskoða reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, nr. 504/1997, einkum 3. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.

Það er ánægjulegt að geta svarað þingmanninum þannig að við erum með í gangi heildarendurskoðun innan málaflokksins. Heildarendurskoðun á þeirri reglugerð er þegar hafin og á málaflokknum heild sinni.

Starfandi er starfshópur á mínum vegum sem hefur það hlutverk að fara heildstætt yfir réttindi foreldra fatlaðra og langveikra barna, en réttindi þeirra til greiðslna byggjast aðallega á lögum um félagslega aðstoð varðandi umönnunargreiðslurnar og lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Markmið með endurskoðuninni er að meta reynsluna af framkvæmdinni, á þeim þáttum sem þingmaðurinn nefndi í sinni ræðu og þörfinni á lagabreytingum og breytingum á þeim reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli laganna.

Það er rétt að fram komi að ég hugaði sérstaklega að því við skipun starfshópsins að í honum væru fulltrúar sem sjálfir hefðu reynslu af því að vera með langveik börn og hefðu því reynslu af því kerfi sem komið hefur verið á fót í því skyni að styðja við þennan hóp sem og varðandi framkvæmd þess.

Það atriði sem hv. þingmaður vísar sérstaklega til í fyrirspurn sinni lýtur að því að greiðslur sem veittar eru samkvæmt reglugerðinni skuli ákveðnar til tiltekins tíma og að hámarki til fimm ára í senn. Það er líka til skoðunar hjá starfshópnum. Hópurinn hefur fundað reglulega og ég hef fylgst með því og lagt áherslu á að sú vinna gangi vel. Ég vonast því til þess að fá fljótlega frá honum skýrslu og tillögur um æskilegar úrbætur í málaflokknum. Síðustu daga og vikur hef ég fengið verulega umfangsmiklar tillögur sem snúa að breytingum á þessum lagabálkum, almannatryggingum og lögum um félagslega aðstoð.