145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

endurskoðun á reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna.

518. mál
[17:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og það gleður mig mjög að hún sé að láta endurskoða þetta allt saman.

Það var nú eiginlega það sem ég var að sækjast eftir að fá að vita, hvort hún væri hugsanlega að vinna í þessum málum. Þetta er önnur fyrirspurnin sem ég legg fram til ráðherra um þessi mál því að þau eru á hendi margra ráðherra, þ.e. reglugerðir um endurnýjanir á leyfum og aðstoð fyrir fatlað fólk, sem eru náttúrlega mjög bagalegar fyrir það.

Eins og ég kom inn á búum við þannig í dag að við erum netvædd þjóð og getum örugglega verið með gagnagrunn þar sem skráðar eru í eitt skipti upplýsingar um einstakling sem er með varanlega örorku þannig að hann þurfi ekki ítrekað að sækja um leyfi og aðstoð, ekki nema þá í gegnum sjúkraþjálfara sinn eða sérfræðing sem hann leitar til.

Fram kom að hæstv. ráðherra er með í þessum vinnuhópi fólk sem hefur reynslu og þekkingu á þessum málum og hefur þurft að reiða sig á kerfið, sem er lykilatriði fyrir mér. Ef verið er að endurskoða þessar reglugerðir vil ég benda ráðherrum og hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur að hafa til hliðsjónar samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Þar kemur svo skýrt fram í o-lið í formálsorðum samningsins að fatlað fólk eigi að eiga kost á því að eiga virka aðild að ákvarðanatöku um stefnumið og áætlanir, m.a. ákvarðanatöku sem varðar það með beinum hætti.

Eins stendur í 4. gr. samningsins að ef undirbúa eigi samninga eða löggjöf fyrir fatlað fólk skuli það haft með í ráðum.

Ég vil enn og aftur ítreka við hæstv. ráðherra að hafa það til hliðsjónar og hafa fatlað fólk ætíð með í ráðum í þessum efnum því að þá er hægt að koma í veg fyrir mikla vinnu sem kemur oft í kjölfarið.

Þessar reglugerðir eru óviðunandi og niðurlægjandi, það (Forseti hringir.) segir mér fólk sem notar þessa þjónustu, ekki ég sjálfur.