145. löggjafarþing — 82. fundur,  1. mars 2016.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Hún vakti með mér óhug, fréttin í morgun af hælisleitanda eða flóttamanni sem hótaði að kveikja í sér í gærkvöldi. Íslenskt samfélag er ekki vant slíkum hótunum og við viljum auðvitað ekki búa við það að flóttamenn eða hælisleitendur sem hér eru þurfi að bíða lausnar mála sinna í tvö til fimm ár. Það er ekki boðlegt.

Flóttamannastraumurinn er stórkostlegt vandamál eins og við höfum heyrt á undanförnum mánuðum. Svíar og Danir hafa lokað landamærum sínum til að takmarka komu flóttamanna og til þess að geta fylgst með því hverjir koma til landsins. Austurríkismenn og Balkanlöndin hafa fundað sérstaklega vegna vanda Schengen-svæðisins en Grikkland er galopið og þar streymir flóttafólk inn sem aldrei fyrr og á þá greiða leið inn í Schengen-löndin.

Virðulegi forseti. Verðum við að fara að ráðum Svía og Dana og takmarka aðgengi fólks til landsins eins og var áður en Schengen-samstarfið varð að veruleika? Það er mikilvægt að við skoðum hvort það sé nauðsynlegt á þessari stundu að flóttamönnum eða hælisleitendum sé snúið við í Keflavík og þeir sendir aftur til síns heima. Ég þekki það í raun hve erfitt er að taka þátt í þessari umræðu, góða fólkið og fjölmiðlarnir rífa mann í sig ef maður þorir að opna munninn og hafa skoðun. Fólkið í landinu þorir ekki að hafa opinbera skoðun á þessum málum en ég held að það sé mikilvægt að við ræðum það hér í þessum sal hvort ekki þurfi að verða breytingar á opnun landamæra landsins eins og hér hefur auðvitað verið rætt áður. En ég held að það sé mál að linni.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna