145. löggjafarþing — 82. fundur,  1. mars 2016.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson kynnti fyrir helgina mjög metnaðarfullar endurbætur í heilsugæslunni en höfuðmarkmið þeirra er að bæta þjónustu við sjúklinga og ég fagna þessu mjög. Það er verið að auka val sjúklinga og mæta kröfum um betri þjónustu. Við viljum verða samkeppnishæfari við önnur lönd, ekki bara hvað varðar launagreiðslur heldur einnig starfsumhverfi. Engin breyting verður á verkefnum heilsugæslunnar eins og þau eru skilgreind í lögunum.

Eins og fram hefur komið tel ég að við verðum að gera enn betur en þegar hefur verið gert af hálfu þessarar ríkisstjórnar sem samt er aldeilis töluvert til að endurreisa heilbrigðiskerfið í landinu. En áform hæstv. heilbrigðisráðherra eru svo sannarlega mikilvægt skref í rétta átt. Ástæðan er að vegna áratugafjárskorts og niðurskurðar er staðan mun verri en ég hafði gert mér grein fyrir og greinilegur þjóðarvilji fyrir því sem birtist í undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar að við endurreisum heilbrigðiskerfið í landinu og setjum það í fyrsta sæti á forgangslista stjórnvalda þegar fjárveitingar eru annars vegar.

En aftur að þeim úrbótum í heilsugæslunni sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur kynnt. Þær fela meðal annars í sér að fjármagn til heilsugæslustöðva verður óháð rekstrarformi og eignarhaldi en ræðst af því hvernig hópurinn sem heilsugæslan þjónar er saman 0settur. Þetta er afar skynsamlegt. Þá verður heilsugæslustöðvum fjölgað þannig að þær geti betur sinnt því mikilvæga hlutverki sínu að vera ein af grunnstoðum heilbrigðiskerfisins.

Þá er einnig skynsamlegt að mínu viti (Forseti hringir.) að sá arður sem verður af slíkum rekstri, sé hann einkarekinn, renni til þess að styrkja starfsemi heilsugæslustöðvanna og bæta þjónustu og umhverfi sjúklinga.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna